Mexíkóska lággjaldaflugfélagið Volaris hefur skrifað undir pöntun á 44 flugvélum frá evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus. Um er að ræða 30 vélar af gerðinni A320neo og 14 A320 vélar.

Hér er um að ræða stærstu einstöku flugvélapöntun hjá mexíkósku flugfélagi. Þá er Volaris fyrsta flugfélagið frá Mexíkó sem pantar A320neo vélar, en neo vélarnar eiga að vera sparneytnari en upprunalegu A320 vélarnar.

Volaris hóf starfsemi árið 2006 og er nú eitt af þremur stærstu flugfélögum Mexíkó. Floti félagsins telur nú 33 vélar, 24 vélar af gerðinni Airbus A319 og 9 A320 vélar. Þá á félagið þegar pantaðar 11 A319 vélar og fyrir átti félagið pantaðar 12 A320 vélar.

Airbus A320 vél í litum mexíkóska flugfélagsins Volaris.
Airbus A320 vél í litum mexíkóska flugfélagsins Volaris.