Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa lækkað verulega í gær.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar býr von í brjósti fjárfesta um að bandaríski seðlabankinn lækki stýrivexti sína í næstu viku og útskýrir það að hluta til hækkanir dagsins.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 3,7%, Dow Jones um 3,3% og S&P 500 um 4%.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins í dag. Þannig hækkuðu Bank of America, Wells Fargo og Citygroup allir um tæp 10%.

Vélarframleiðandinn General Electric hækkaði um 13% í dag eftir að félagið tilkynnti að það myndi greiða út arð í byrjun næsta árs jafnvel þótt gert sé ráð fyrir tapi á þriðja ársfjórðungi. Gert er ráð fyrir að arðurinn verði um 1,24 Bandaríkjadali.