Bandaríska fjármálafyrirtækið Wachovia tapaði miklu á þriðja fjórðungi en bankinn afskrifaði viðskiptavild upp á 18,8 milljarða Bandaríkjadala auk 8,71 milljarða dala vegna annars kostnaðar í tengslum við hið erfiða ástand sem er á mörkuðum.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar að tölurnar varpi ljósi á þá staðreynd af hverju stjórnvöld studdu fyrirhugaða yfirtöku Citigroup á Wachovia í síðasta mánuði en þá var óttast um að fyrirséð fall fyrirtækisins myndi æra óstöðuga fjármálamarkaði.

Ekkert varð að yfirtökunni eftir að Wells Fargo & Co lagði fram mun hagstæðara tilboð um samruna fyrirtækjanna tveggja.

Heildartap Wachovia á fjórðungnum var 23,7 milljarðar dala eða 11,18 dalir á hlut.

Á sama tíma í fyrra var heildarhagnaðurinn 1,62 milljarðar dala eða 85 sent á hlut. Tekjurnar á tímabilinu féllu um 23% og voru 5,77 milljarðar dala.

Útlánatap Wachovia hefur aukist feykilega en það var 6,63 milljarðar dala á tímabilinu samanborið við 408 milljarðar í fyrra.

Eins og fram kemur í frétt Dow Jones þá má rekja meginvanda Wachovia til kaupanna á Golden West Financial fyrir tæpum tveim árum. Wachovia borgaði 25,5 milljarða dala fyrir Golden en segja má að þar með hafi kötturinn í sekknum verið keyptur dýru verði: Með kaupunum, sem áttu sér stað þegar fasteignabólan í Bandaríkjunum stóð sem hæst, fylgdu háar upphæðir fasteignalána með breytilegum vöxtum.

Síðan þá hefur staða Wachovia versnað og segja má að fyrirtækinu hafi verið veitt svo gott sem rothögg þegar matsfyrirtæki lækkuðu lánshæfismat þess á sama tíma og stórir gjalddagar voru að falla.