Gengi hlutabréfa í bandarísku verslanakeðjunni Wal-Mart féll um tæp fimm prósent við upphaf viðskiptadagsins í Bandaríkjunum í dag. Ástæðan er sú að bandaríska stórblaðið The New York Times svipti af því hulunni um helgina að stjórnendur verslanakeðjunnar í Mexíkó hafi mútað yfirvöldum til að fá leyfi fyrir byggingu verslanamiðstöðva víða um landið.

Rannsókn hófst á málinu innan veggja fyrirtækisins en var stöðvuð. Málið var að sama skapi ekki tilkynnt yfirvöldum.

Lykilmaðurinn á bak við mútugreiðslurnar var duardo Castro-Wright, aðstoðarforstjóri Wal-Mart. Hann er sagður hætta störfum í júlí.

Í netútgáfu bandaríska tímaritsins Forbes segir að svo kunni að fara að bandaríska dómsmálaráðuneytið og fjármálaeftirlit landsins sekti Wal-Mart um sem nemi eitt til tvö prósent af ársveltu. Það getur hljóðað upp á 4,5 milljarða dala, jafnvirði rúmra 570 milljarða íslenskra króna.