Microsoft tilkynnti í vikunni að næsta útgáfa Windows stýrikerfisins, Windows 10, væri væntanleg þann 29. júlí næstkomandi.

Eigendum Windows 8 verður boðin ókeypis uppfærsla, en almenn óánægja hefur verið með Windows 8 stýrikerfið meðal notenda. Hefur það orðið til þess að stór hluti þeirra hélt sig við Windows 7, í von um að betri útgáfa af stýrikerfinu kæmi út næst.

Nýjasta útgáfa stýrikerfisins mun til dæmis bjóða upp á auðkenningu á andliti, augum eða fingrafari til að aflæsa tölvum og spjaldtölvum.

Microsoft hefur lofað að Start-valmyndinni verði breytt til fyrra horfs, en nýstárleg hönnun hennar í Windows 8 þótti ekki hafa heppnast vel.