Wizz air, eitt umsvifamesta lággjaldaflugfélag Evrópu, hyggst einungis fylla um tvo þriðju hluta sæta í vélum sínum þegar ferðabönnum verður aflétt. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hyggst Evrópusambandið framlengja ferðabönn til 15. maí næstkomandi, og hyggjast íslensk stjórnvöld hlíta því með samsvarandi aðgerðum.

Jozsef Varadi, forstjóri Wizz air, sem og forystumaður alþjóðlegra samtaka flugfélaga, segja að líklega þurfi að skilja miðsætið eftir í hverri þriggja raða sætaröð til að tryggja þá fjarlægð milli fólks sem talin er draga úr smithættu.

„Við myndum í raun vera að skerma af þriðjung flugvélanna,“ hefur Reuters eftir Varadi. „180 sæta flugvél yrði 120 sæta.“

Alþjóðleg samtök flugfélaga, (IATA) hefur lýst yfir áhyggjum af aukinni hörku í ferðabönnum ríkja, sem oft hafa komið á sama tíma og samkomubönn í ríkjum hefur verið aflétt.

Vísa samtökin þar til bæði Kína og Suður Kóreu, og búast samtökin við að kostnaðurinn við útbreiðslu kórónuveirunnar frá upphafslandinu Kína um heiminn nemi um 314 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 44,9 billjörðum króna, það er 44.939 milljörðum íslenskra króna.