Bandaríska netfyrirtækið Yahoo í Kísildal hyggst segja upp þúsundum starfsmanna á næstu viku, að því er Wall Street Journal greinir frá í dag. Samkvæmt heimildum blaðsins vinnur forstjóri félagsins, Scott Thompsons, að undirbúningi breytinga á rekstri félagsins, sem munu meðal annars fela í sér hópuppsögn.

Talið er að stór hluti breytinga snúi að framleiðsluhluta Yahoo sem hefur gengið verr en vonir stóðu til. Yahoo hefur notið aðstoðar Boston Consulting Group við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Ætlun Yahoo er að draga úr umsvifum og skerpa á sýn félagsins.

Á síðustu árum hefur Yahoo nokkrum sinnum sagt upp stórum hópi starfsmanna. Búist er við að fyrirhuguð hópuppsögn verði sú stærsta í sögu félagsins. Starfsmenn Yahoo eru í dag rúmlega 14 þúsund talsins.