Svissneska verktakasamsteypan Marti Holding AG keypti Íslenska aðalverktaka árið 2010 sem hluta af fjárhagslegri endurskipulagningu íslenska félagsins eftir bankahrunið, en fjallað er um eigendur félagsins í úttekt Frjálsrar verslunar á þrjátíu af umsvifamestu erlendu auðmönnunum hér á landi.

Marti er með starfsemi víða um heim, til að mynda í Chile, Hong Kong og Svíþjóð. Höfuðstöðvar félagsins eru skammt fyrir utan Bern í Sviss. Félagið hefur verið í eigu Marti-fjölskyldunnar frá því að Alfred Marti stofnaði fyrirtækið árið 1922. Mikil leynd er yfir rekstri félagsins. Félagið birtir engar rekstrartölur opinberlega utan þess að það segir að um 6.000 manns starfi hjá fyrirtækinu.

Marti er þó talið vera næststærsta verktakafyrirtæki landsins. Meðal verkefna sem nefnd eru sérstaklega á heimasíðu félagsins er bygging Hörpu í Reykjavík, sem ÍAV reisti.

Árið 2018 tók Retro Marti við stjórnartaumunum þegar faðir hans, Alfred Rudolf Marti, fór á eftirlaun. Þeir þykja hálfgerðir huldumenn á svæðinu. Svo gott sem engar myndir eru til af þeim opinberlega, þeir sjást aldrei á opinberum viðburðum og eru ekki hluti af neinum samtökum atvinnurekenda á svæðinu.

Jafnvel þeir sem best eru tengdir í viðskiptalífi Bernarborgar kunna lítil sem engin deili á þeim. Þá tjá þeir sig aldrei við fjölmiðla, sama hvað gengur á. Þó hefur félagið haft ærna ástæðu til þess á síðustu ári.

Á síðustu árum hefur félagið verið til rannsóknar vegna hugsanlegra brota á samkeppnislögum og skattalögum. Félagið hefur nýlega verið sakað um að bera ábyrgð á miklum fiskidauða í stöðuvatninu Blausee í Sviss. Eitraður úrgangur úr Lötschberg-jarðgöngunum sem það vann endurbætur á er sagður hafa borist í vatnið.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í desember.