Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, gefur lítið fyrir fortíðarþrá þeirra sem vilja endurvekja „gömlu góðu dagana“ þar sem ríkið var alltumlykjandi í atvinnurekstri. Hann bendir þó á að slíkar hugmyndir séu mikilvægar fyrir umræðuna.

„Ég fagna því að hugmyndafræðileg umræða geti farið fram og því sem slík umræða leiðir til. Þegar fólk stígur fram með sósíalískar hugmyndir skapast oft betri grunnur til til þess að skilja hver valkosturinn er og hvers virði hann sé. Í sinni allra einföldustu mynd er erfitt fyrir talsmenn þessara sósíalísku hugmynda að benda á fyrirmyndarríkið því hvert sem litið er virðast þessar hugmyndir hafa hrunið til grunna.“

Alls staðar sé byggt á sterku einkaframtaki, frelsi til athafna og minni ríkisafskiptum þar sem eru raunverulegar framfarir, sókn og frelsi fólks til að finna sér viðfangsefni sem það helst vilji sinna.

„Þeir sem tala fyrir frelsinu og því að mikilvægt sé að halda aftur af ríkisafskiptum eru oft sakaðir um að vera á móti ríkisrekstri í einu og öllu. Það er alrangt, Við höfum byggt upp samfélag á Íslandi sem hefur sýnt sig að tryggi vel jöfn tækifæri allra. Það byggist m.a. á því að við erum með sameiginlega fjármögnun á menntakerfinu. Þannig á ekki að skipta neinu máli hvernig heimilisbókhald foreldra barna stendur. Öll börn í landinu eiga jafnt aðgengi að skólum. Þar að auki erum við með vel fjármagnað opinbert heilbrigðiskerfi. Þetta er ekki tilfellið í öllum samfélögum sem við viljum bera okkur saman við í lífsgæðum en meginlínan hjá öllum Norðurlandaþjóðunum er svipuð. Það er verðmætt að halda utan um þessi jöfnu tækifæri sem eru grunnurinn í þeirri sátt sem ríkir um það þjóðskipulag sem við viljum verja og halda áfram að þróa.“

Nánar er rætt við Bjarna í tímariti Frjálsrar verslunar um einkavæðinguna. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.