Fyrir hrun höfðu lífeyrissjóðirnir flestir þá stefnu að vera hlutlausir og beita sér ekki í atkvæðagreiðslum eða á annan hátt í málum er vörðuðu rekstur fyrirtækjanna. Áratug seinna ætlaði starfshópur um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífsins þeim hins vegar annað og meira hlutverk:

„Lífeyrissjóðirnir gæta mikilla hagsmuna og eru því virkir hluthafar í fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. Sjóðirnir eiga að leggja metnað í að innleiða leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og stuðla að því að stjórnarmenn fyrirtækja séu sjálfstæðir í störfum sínum og hafi engin tengsl við tiltekna hluthafa umfram aðra.“

[…]

„Eftir hrunið hafa áherslur sjóðanna breyst og eru þeir nú virkir hluthafar. Sjóðirnir eiga oftast það stóran eignarhlut að þeir telja það skyldu sína að líta eftir fjárfestingum sínum auk þess sem þeir vilja beita áhrifum sínum til að leggja áherslu á langtímasjónarmið og góða stjórnarhætti.“

Stærð sjóðanna sem hluthafa og dreift endanlegt eignarhald var þó ekki aðeins litin jákvæðum augum. Þeim fámenna hóp stjórnenda sem færi með hluthafavaldið fyrir hönd sjóðfélaganna væru fengin gríðarleg völd, sem hætt væri við að gæti leitt til minni framleiðslu og hærra vöruverðs.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní . Hægt er að gerast áskrifandi hér.