Steingrímur J. Sigfússon segir nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar þegar kemur að einkavæðingu í litlu og tiltölulega einangruðu hagkerfi eins og á Íslandi. Hann telur að rólegra sé yfir umræðu í kringum einkavæðingu í dag.

„Almenna afstaða mín er sú að mikilvægustu innviðirnir, sem eru algjörlega nauðsynlegir til þess að halda samfélaginu gangandi og sem ríkið mun alltaf beint eða óbeint bera ábyrgð á að séu í lagi, eigi bara að vera hjá hinu opinbera. Þá er ég að tala um hluti eins og lykilsamgöngukerfið, orkuöflun og afhendingu og svo að sjálfsögðu velferðarþjónustuna og allt það sem er mjög miðlægt í þessu.“

„Svo er það líka bara reikningsdæmi. Ég hef aldrei skilið þá hagfræði að ríkið selji frá sér álitlegar mjólkurkýr sem gefa því góðan arð, ef því er að skipta, og eru jafnframt þá um leið hluti af innviðum og einhverju sem ríkið getur með eign sinni tryggt að sé til staðar og sinni sínu hlutverki.“

Í framtíðinni sé ólíklegt að einkavæðing verði af þeirri stærðargráðu sem hún var í kringum aldamót, líklegra sé að mörkin milli þess sem er á vegum hins opinbera annars vegar og einkamarkaðarins hins vegar færist til, til að mynda innan heilbrigðis- og menntakerfisins.

Ein mýtan sé að rekstur á félagslegum grunni eða rekstur sem hið opinbera stendur fyrir sé sjálfkrafa lakari en einkarekstur. Sjálfur kveðst Steingrímur stuðningsmaður blandaðs hagkerfis en mikilvægt sé að græðgin ráði ekki för.

„Við Íslendingar höfum svo hryllilega reynslu af því kerfi þar sem þú einkavæðir gróðann en þjóðnýtir tapið, það er kapítalismi andskotans og hann viljum við ekki sjá. Þannig að þetta þurfum við alltaf að hafa í huga þegar það er verið að nálgast umræður um þessi mál og þarf að fá að hafa vægi. Svo held ég að síðast en ekki síst eigi ekkert af þessu að gerast í óþökk við þjóðina. Ég held að það þurfi ekkert langar ferðir út á götur og hitta mjög marga til þess að átta sig á því að Íslendingar eru illa brenndir og eru ekkert hrifnir af einkavæðingarbrölti, það er bara ekki söluvænt í dag.“

Nánar er rætt við Steingrím í Frjálsri verslun. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.