Stærsta áskorun nútímans eru loftslagsbreytingarnar og alvarlegu afleiðingarnar sem þær eru þegar farnar að hafa. Aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda kveður á um 55% samdrátt í losun til ársins 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040. Þessi metnaðarfullu markmið kalla á öflugar aðgerðir með miklum fjárfestingum. Hluti af vandmálinu hér á landi er losun frá vegasamgöngum og er stærstur hluti þeirrar losunar vegna fólksbifreiða. Fólksbílaflotinn telur um 230 þúsund bíla, en þar af eru eingöngu rúmlega 5% hreinir rafmagnsbílar. Hreinir rafmagnsbílar töldu þó tæplega 30% allra nýskráðra fólksbíla á árinu 2021.

Rafmagnsbílum í umferð hefur því fjölgað gríðarlega hratt undanfarið og ekkert lát verður á fjölguninni á komandi árum. Núverandi samgönguinnviðir eru byggðir upp í kringum jarðefnaeldsneyti með þjónustustöðvum í þéttbýli og við fjölfarna vegi um allt land þar sem hægt er með stuttu stoppi að fylla á bílinn. Rafbílar eiga erfitt með að nýta sér þessa innviði í núverandi mynd. Þessi nýju samgöngutæki krefjast þess að fjárfest verði í innviðum sem hafa vanalega ekki verið tengd samgöngum, svo sem flutningskerfi raforku og rafhleðslustöðvum. Þetta eru gríðarlegar fjárfestingar sem krefjast aðkomu og fjármagns stjórnvalda.

Úr olíufélagi í orkufélag

N1 er í grunninn olíufélag en hefur undanfarin ár lagt mikla vinnu í undirbúning þessara orkuskipta þar sem sala á jarðefnaeldsneyti mun minnka með aukinni rafbílavæðingu. Fyrsta skrefið var að kaupa fyrirtæki sem sérhæfir sig í uppsetningu og sölu hleðslustöðva og svo með kaupum á Íslenskri orkumiðlun sem var fyrsta einkarekna sölufyrirtækið á raforkumarkaði sem reist var frá grunni. Innkoma Íslenskrar orkumiðlunar, sem nú heitir N1 Rafmagn, á íslenska raforkumarkaðinn hefur gjörbreytt samkeppninni. Áður einkenndist markaðurinn af fákeppni og þægilegri stöðu raforkufyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Viðskiptavinir greiddu verð sem var svipað hjá öllum fyrirtækjunum og fáir sáu tilganginn í því að skipta um raforkusala. ÍOM leiddi lækkun raforkuverðs til heimila og í kjölfarið jókst samkeppnin einnig um viðskipti fyrirtækja. Raforkusala þarf að vera meira en bara mánaðarlegir reikningar fyrir raforku. Við sjáum fyrir okkur aukna upplýsingagjöf, þjónustu í kringum umhverfismál og bestun innkaupa.

Verður bíllinn þinn orkubanki?

Á næstunni munu veitufyrirtækin skipta út rafmagnsmælum fyrir snjallmæla. Tækifæri eru margvísleg með tilkomu þessara mæla og eitt þeirra er að bjóða upp á mismunandi raforkuverð eftir tíma dags. Raforkunotkun á almennum markaði er mest milli klukkan 8 og 20 á daginn þegar flest fyrirtæki og heimili nýta raforku til daglegra verka. Fjárfestingar í raforkukerfinu verða að taka mið af álagspunktunum og því mikilvægt að reyna eins og mögulegt er að dreifa betur úr notkun rafmagnsins. Hægt er að lágmarka þessar fjárfestingar vegna rafbílavæðingar með því að hvetja notendur til að hlaða bíla utan álagstíma og þannig fái þeir ódýrari raforku í staðinn. Einnig eru möguleikar á því að hægt verði að nota rafmagnsbílana sem orkugeymslur sem gætu selt inn á raforkumarkaðinn þegar álagið er mikið.

Vandinn er stór og því þurfa lausnirnar að vera það líka.

N1 stefnir á að vera leiðandi í orkuskiptum, með því að bjóða hagstætt raforkuverð sem endurspeglar breytta raforkunotkun með fjölgun rafmagnsbíla og aukna þjónustu með áherslu á umhverfismál og góða upplýsingagjöf. Við stefnum á uppbyggingu öflugra hraðhleðslustöðva hringinn í kringum landið og eru þjónustustöðvar N1 vel staðsettar til að sinna viðskiptavinum á ferðalagi um landið.

Við höfum byggt upp mikla þekkingu á hönnun hleðslulausna fyrir húsfélög og fyrirtæki. Markaðurinn þar er í mótun og hefur samkeppnin snúist meira um jarðvegs- og rafverktakavinnu heldur en bestu hleðslustöðvarnar og tæknilausnirnar. Þar er töluvert enn í land, bæði í hugbúnaðarþróun, þróun vélbúnaðar, tækniþekkingu og sérstaklega í fræðslu til notenda. Enn koma upp ýmis vandamál þar sem notandinn þarfnast leiðbeininga og aðstoðar. Einn daginn verður það líklega þannig að yngra fólk mun ekki kunna að dæla bensíni á bíl, ekki frekar en það kann á vídjótæki eða skífusíma í dag.

Þetta getur gengið upp með að rafvæða smærri farartækin en líklega þarf að stóla á aðrar lausnir fyrir stærri farartæki eins og vöruflutningabíla, skip og flugvélar.

Má bjóða þér rafmagn eða vetni?

Lausnin liggur líklega að einhverju leyti í vetni. Þar er N1 einnig í kjörstöðu. Við höfum áratuga reynslu í innflutningi og dreifingu á eldsneyti, auk þess sem staðsetning þjónustustöðva okkar gerir það að verkum að það eru fá félög í jafn góðri stöðu til að byggja upp áreiðanlega þjónustu fyrir vetnisfarartæki um allt land. Við stefnum því ótrauð í átt að því að ferðalangar, hvort sem þeir aka um á rafmagni eða vetni, geti nálgast allt fyrir ferðalagið á stöðvum N1.

Ísland er í kjörstöðu til að framleiða sitt eigið eldsneyti, bæði raforku og rafeldsneyti, með innlendri grænni orku. Mögulegt væri að gera það í stórum stíl og einnig flytja umframframleiðslu úr landi þegar svo ber undir. Flutningur eldsneytis er þó vandasamur og því er einnig í skoðun að framleiða vetni við stærstu þjónustustöðvarnar og selja það beint til viðskiptavina. Þetta þarfnast gríðarlegra fjárfestinga sem má þó auðveldlega réttlæta ef markaðsskilyrðin eru til staðar.

Orkuskiptunum fylgja margar áskoranir og eru þær allar mismunandi fyrir þau verkefni sem talin hafa verið hér upp. Loftslagsváin krefst þess hins vegar að við hefjum þessa vegferð af alvöru. Vandinn er stór og því þurfa lausnirnar að vera það líka. Virk samkeppni á orkumarkaði mun vonandi halda áfram að ýta undir nýsköpun og flýta orkuskiptunum en meira þarf að koma til. Orkuskiptin krefjast mikilla fjárfestinga, tækniþróunar og samvinnu hagaðila ef vel á að takast. Því er mikilvægt að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki leggist á eitt og vinni saman í átt að grænni og betri samgöngum.

Greinin birtist í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar þann 24. júní.