*

laugardagur, 20. júlí 2019
Þórður Snær Júlíusson
1. september 2011 09:43

Belti og axlabönd

Í október 2008 voru sett neyðarlög á Íslandi. Samkvæmt þeim voru innstæður gerðar að forgangskröfum í bú bankanna og þær færðar yfir í nýja banka.

Í október 2008 voru sett neyðarlög á Íslandi. Samkvæmt þeim voru innstæður gerðar að forgangskröfum í bú bankanna og þær færðar yfir í nýja banka. Þau gerðu það að verkum að erlendir kröfuhafar íslenskra banka voru látnir taka stærsta höggið af falli þeirra. Tap þeirra er, enn sem komið er, um 7.400 milljarðar króna.  Þeir hafa tapað miklu.

Sama dag og neyðarlögin voru sett birti ríkisstjórn Íslands yfirlýsingu þess efnis að allar innstæður í „innlendum

 viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu“. Sú yfirlýsing er enn í gildi.
Innstæðueigendur voru því komnir með belti og axlabönd. Þeir komust í öruggt skjól.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis er sagt áætlunum um hverjar ábyrgðir ríkis gætu orðið á innstæðum ef á reyndi. Þar kemur fram að hópurinn hafi áætlað að ef 5 milljón króna hámarksvernd yrði á innstæðum, miðað við umfang þeirra í maí 2008, þá myndi skuldbinding ríkisins vegna þessa verða 555 milljarðar. Það er tæpur fjórðungur af heildarinnstæðum á þeim tímapunkti. Ef sú leið hefði verið valin þá hefðu 95% einstaklinga verið með sparnað sinn í vari og 90% lögaðila. Lítill hluti stórra fjármagnseigenda hefði því verið skilin eftir með stórt tap.

Samkvæmt hagtölum Seðlabankans hækkuðu innlán innlendra aðila um rúmlega 142 milljarða króna í október 2008. Hluta þeirrar hækkunar má rekja til þess að aðilar sem áttu peninga erlendis fluttu þá „heim“ í skjól allsherjarinnstæðutryggingar. Þá seldu margir fagfjárfestar áhættusamari pappíra og breyttu í innlán þegar tók að sverfa af. Eignarhaldsfélög áttu 170 milljarða í innlánum á sama tíma. Verðbréfa- og fjárfestingasjóðir, sem margir fagfjárfestar áttu hluti í, áttu innlán fyrir 57 milljarða. Ýmis lánafyrirtæki 23 milljarða. Og svo framvegis. Ríkið ákvað einhliða að bjarga þessum aðilum. Þeir græddu allir á þeirri ákvörðun.

Var nauðsynlegt að tryggja innlán fjárfesta? Eignarhaldsfélaga? Allra þeirra sem höfðu betri innsýn í hvað var að gerast þegar bankarnir voru að hrynja og færðu eignir sínar í það form sem líklegast var að lifa af hremmingarnar? Mér finnst ekki, en ríkisstjórn Íslands var, og er, ósammála.

 Endahnútur sem birtist í Viðskiptablaðinu 1. september 2011.

Stikkorð: Endahnútur
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.