*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Óli Björn Kárason
21. apríl 2019 16:16

Bleika blaðið

Stofnandi og fyrsti ristjóri Viðskiptablaðsins fer yfir fyrstu vikur blaðsins og hví það var kallað „bleika blaðið“.

Hér sést fyrsta forsíða Viðskiptablaðsins en hún birtist 20. apríl 1994. Síðar átti litur blaðsins eftir að breytast.

„Eimskip er best rekna íslenska fyrirtækið að mati þátttakenda í skoðanakönnun sem Viðskiptablaðið hefur gert meðal stjórnenda fyrirtækja og sérfræðinga. Marel, Prentsmiðjan Oddi, Grandi og Ingvar Helgason fylgja fast í kjölfarið.“

Þannig hljómaði upphaf forsíðufréttar fyrsta tölublaðs Viðskiptablaðsins 20. apríl 1994. Fyrir ofan fréttina voru myndir af forstjórum þeirra fimm fyrirtækja sem þóttu skara fram úr. Ég man hvað okkur á ritstjórninni þótti forsíðan glæsileg þar sem hver forstjórinn var í sjálfstæðum myndaramma. Fáir hönnuðir samtímans munu hins vegar sækja innblástur til þessarar fyrstu forsíðu blaðs sem nú hefur komið út í aldarfjórðung. Í sama blaði var útskýrt að samkvæmt hamborgarahagfræðinni væri gengið íslensku krónunnar stórlega ofmetið. Sótt var í smiðju tímaritsins The Economist sem hafði í mörg ár reiknað út svokallaða Big Mac vísitölu.

Viðskiptablaðið setti strax tóninn í efnistökum og -vali. Gagnrýndi í fréttaskýringu frumvarp um flutningsjöfnun og hélt því fram að með samþykkt þess væri ýtt undir offjárfestingu olíufélaganna og blaðið vildi verja sjálfstæði Seðlabankans eftir umdeilda og mjög vafasama skipan seðlabankastjóra. Síðar gerði Viðskiptablaðið viðamikla úttekt á ríkisfjármálum og sýndi fram á hvernig hægt væri að lækka tekjuskatt einstaklinga í 5% fyrir utan útsvar sveitarfélaga. Viðskiptablaðið tók að sér hlutverk gagnrýnandans þegar kom að skipulagi ríkisrekstrar og ríkisfjármála. Ekki voru allir ráðherrar samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ánægðir, en fjármálaráðherra fagnaði gagnrýninni, taldi hana nauðsynlega og sanngjarna.

Frá upphafi var ritstjórnarstefnan því skýr: Viðskiptablaðið er málsvari frjálsra viðskipta. Í leiðara fyrsta tölublaðsins var það tilkynnt að blaðið ætti „samleið með þeim einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum sem aðhyllast svipaðar skoðanir, en fylgir engum stjórnmálaflokki eða hagsmunasamtökum“. Markmið með útgáfunni voru háleit. Viðskiptablaðið skyldi þjóna viðskiptalífinu og sinna sívaxandi þörf fyrir ítarlegar og traustar upplýsingar um viðskipti og efnahagsmál, jafnt innlend sem erlend. Áhersla var lögð á að greina ársreikninga og milliuppgjör fyrirtækja með gagnrýnum hætti. Þá voru greiningardeildir bankanna varla til og fáir sem sinntu því mikilvæga verkefni að grandskoða rekstur og efnahag fyrirtækja. Það var því ekki tilviljun að blaðamenn Viðskiptablaðsins urðu margir eftirsóttir starfskraftar fjármálafyrirtækja, ekki síst greiningardeilda þeirra.

Gamall draumur

Ég hafði lengi látið mig dreyma um að standa að útgáfu sérhæfðs vikublaðs um viðskipti og efnahagsmál. Þegar hugmyndin var að mótast höfðu ekki allir trú á að slíkt væri raunhæft. En þeir voru til sem vildu leggja mér lið og láta drauminn rætast. Tólf einstaklingar og fyrirtæki úr ólíkum greinum atvinnulífsins, úr iðnaði, verslun, landbúnaði, þjónustu og fjölmiðlun, tóku þátt í stofnun Viðskiptablaðsins undir hatti Útgáfufélagsins Þekkingar hf.

Draumurinn rættist 20. apríl 1994 en þó ekki alveg. Það var alltaf ætlunin að Viðskiptablaðið kæmi út á bleikan pappír. Það náðist ekki fyrr en nokkrum vikum síðar. Með því markaði blaðið sér enn meiri sérstöðu en áður eða eins og maðurinn sagði: „Viðskiptablaðið? Já þú meinar bleika blaðið?“

Viðskiptablaðið naut frá fyrstu tíð velvilja og trausts atvinnulífsins. Flestir gerðu sér grein fyrir nauðsyn þess að til væri óháður, kraftmikill en gagnrýninn fjölmiðill sem stæði við hlið atvinnulífsins. Tekjugrunnurinn var veikur í upphafi og það tók nokkur ár að byggja upp áskriftir og auglýsingatekjur. Þá skipti miklu hve dyggilega hluthafarnir stóðu að baki útgáfunni.

Saga Viðskiptablaðsins er samofin sögu íslensks viðskiptalífs síðasta aldarfjórðunginn. Þar hafa fjölmargir lagt hönd á plóg. Á ritstjórn blaðsins hafa verið hnýtt vinabönd sem aldrei hafa brostið. Árin á Viðskiptablaðinu voru skemmtileg þótt á stundum gæfi á bátinn, ekki síst í upphafi. Það var gæfa blaðsins hve margir hæfileikaríkir einstaklingar komu þar að verki – á ritstjórn, hönnun, auglýsinga- og markaðsdeild og á skrifstofu. Við vorum óhrædd við nýjungar – prófa eitthvað nýtt. Sérblöð voru gefin út, daglegir fréttaþættir fyrir útvarp framleiddir og í einn vetur var haldið úti vikulegum stjórnvarpsþætti um viðskipti og efnahagsmál.

Viðskiptablaðið var órjúfanlegur hluti af daglegu lífi mínu í meira en áratug – hluti af ævisögu sem líklega verður aldrei skráð. Ég hef stundum haldið því fram að ýmsir sem leggjast í að rita eigin ævisögu, séu fremur að skrifa um hvernig ævin hefði átt að vera fremur en hvernig hún var í raun. Sjálfsævisögur eru misjafnar eins og gengur – ekki alltaf traustar heimildir um fortíðina. Minni manna er misjafnt og á stundum svikult. Þetta vita blaðamenn betur en flestir.

Ég óska starfsmönnum og eigendum Viðskiptablaðsins til hamingju með 25 ára afmælið.

 

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið. 

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is