Huginn og Muninn eru ekki í nokkrum vafa um að kaup Landsbankans á TM séu hagfelld fyrir hluthafa Kviku

Þannig hefur komið fram að Kvika mun greiða hluthöfum sínum að minnsta kosti helming kaupsverðsins út í arð eða um 15 milljarða. Það er annað mál hvort kaup Lilju Bjarkar Einarsdóttur bankastjóra og Helgu Bjarkar Eiríksdóttur fráfarandi stjórnarformanns á TM muni reynast langstærsta hluthafanum – íslenska ríkinu – vel. Það ætti líka að vera Lilju og stjórn bankans áhyggjuefni að eini maðurinn sem hefur stigið fram og lýst velþóknun sinni á kaupunum er Stefán Ólafsson félagsfræðingur Eflingar.

Í aðsendri grein á Vísi ímyndar hann sér að Landsbankinn hafi verið betur rekinn en Arion og Íslandsbanki á undanförnum árum og kemur það hröfnunum lítið á óvart að Stefán haldi því fram þvert á staðreyndir. Þá dustar Stefán rykið af hugtakinu „sjálfgræðismennirnir í Sjálfstæðisflokknum“ í greininni. Þá hlýtur að styttast í að Stefán minni fólk á „að hér var hrun!“!

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. apríl.