Að undanförnu hafa hugmyndir um skattlagningu byggða á geðþóttamati verið áberandi í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Rætt hefur verið í fullri alvöru að leggja á svokallaðan hvalrekaskatt á fyrirtæki njóta meðbyrs og hugmyndir eru uppi um að sumir einstaklingar greiði meiri fjármagnstekjuskatt en aðrir sökum tímabundinna aðstæðna.

Samfylkingin lagði fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarp næsta árs. Tillögurnar eru innblásnar af ofangreindum hugmyndum og minna fólk á að Samfylkingin hefur ekki látið af því að elta háværasta lýðskrum dægurmálaumræðunnar hverju sinni.

Meðal tillagna Samfylkingarinnar er að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22%-25% á tekjuhæstu 10% landsmanna. Þetta kann að hljóma vel í eyrum þeirra sem hafa takmarkaðan skilning á stöðu mála í efnahagskerfinu. En hér er ekki verið að leggja til auknar byrðar á fámennan hóp stóreignamanna heldur á fjölmennan hóp sem hefur að mörgu leyti ekki annað til sakar unnið en að eiga skuldlaust hús og aðrar eignir að lokinni áratuga þátttöku á vinnumarkaði.

Samkvæmt stjórnarskrá skal gæta jafnræðis, í upptalningu á því sem alla jafna ætti ekki að geta verið grundvöllur mismunandi meðferðar er m.a. kyn, trúarbrögð og annað sem mikilvægt þykir að  löggjafinn noti ekki til að rökstyðja ójafnræði.  Í upptalningunni er líka vísað til  efnahags.  Því ætti að gjalda varhug við því að bregðast við stundarhagsmunum, jafnvel pólitískum, í þeim tilgangi beinlínis að mismuna með skattlagningu á grundvelli efnahags - sem jafnvel er tímabundin staða.

Samfylkingin lætur ekki þarna staðar numið. Boðaður er hvalrekaskattur á útgerðina og stórfelld hækkun bankaskatts. Hvalrekaskattur er réttlættur þegar sérstakar aðstæður leiða til stórfellds hagnaðar í ákveðnum geirum. Ekki verður séð um að slíkt ástand sé að ræða í íslenskum sjávarútvegi. Þegar horft er til síðustu tveggja ára sést að hagnaður sem hlutfall af eigið fé er svipaður í sjávarútvegi og mannvirkjagerð. Hagnaður sem hlutfall af eigið fé er til að mynda mun meiri í smásöluverslun. Sé litið til framlegðar sker sjávarútvegurinn sig á engan hátt frá öðrum atvinnugeirum. Framlegðin er 25% og mun meiri fjármálum og skaðatryggingum.

Samfylkingin vill að bankaskatturinn verði hækkaður aftur. Rétt er að rifja upp að flokkurinn lagði áherslu á að afnema bankaskattinn að fullu fyrir Alþingiskosningarinnar 2017. Ástæðan fyrir því var væntanlega að flokkurinn hafði þá skilning á að bankaskatturinn leiðir ekki til neins annars en að hækka fjármögnunarkostnað fjármálafyrirtækja og þar af leiðandi viðskiptavina þeirra. Á sama tíma dregur skattlagningin verulega úr virði eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Af tillögum Samfylkingarinnar er hugmyndin um að „loka ehf. -gatinu“ svokallaða vafalaust sú undarlegasta. Samfylkingin vill takmarka möguleika fólks sem stendur eigin rekstri að telja launatekjur sem fjármagnstekjur. Þessi tillaga tekur mið að þeirri firru að skattalegt hagræði sé af því að taka laun út sem fjármagnstekjur í fyrirtækjarekstri. Skattur af fjármagnstekjum er 22% Til þess að hægt sé að greiða arð út úr félagi þá þarf félagið fyrst að afla tekna og af hagnaði verður félagið fyrst að greiða 20% skatt áður en arður er greiddur. Þegar tekið er tillit til heildarmyndarinnar sést að skattlagningarhlutfallið er sambærilegt hvort sem launin eru greidd beint eða tekin út sem arður af fyrirtækjarekstri.

Tillögur Samfylkingarinnar eru ekki vel ígrundaðar. Þeim er fyrst og fremst ætlað að slá pólitískar keilur og eru gagnlausar að öðru leyti.  Flokkurinn segir að kjarapakkanum sé ætlað að verja heimilisbókhald fólksins í landinu og „vinna gegn verðbólgu með aðhaldi þar sem þenslan er í raun og veru.“ Staðreynd málsins að þær grafa undan heimilisbókhaldinu og hafa engin áhrif á þensluna.