Það kom blaðamanni gjörsamlega í opna skjöldu hve mögnuð tilfinning það er að halda á nýfæddum einstaklingi sem kom í fjölskyldu hans ný- lega, þegar systir hans eignaðist sitt fyrsta barn, sem jafnframt er fyrsta barnabarn foreldra þeirra.

Að umvefja eitthvað svona lítið og varnarlaust í örmum sér, finna andardrátt þess þegar það liggur maga við maga, fyllir mann ábyrgðarkennd um að vilja allt gera til að viðkomandi geti lifað góðu og öruggu lífi, en jafnframt þeirri upplifun hve sköpunarverkið er magnað og hve mikilfenglegt kraftaverk það er að sjá nýjan einstakling koma í heiminn.

Heim sem aldrei verður fullkomlega öruggur, sanngjarn eða getur gefið öllum þeim sem í honum búa þau tækifæri sem við helst vildum, þó við eigum auðvitað að reyna að stefna að því að bæta hann með hverri kynslóð.

Það er ekki hægt að vera annað en þakklátur fyrir það starf sem forfeður okkar Íslendinga hafa unnið hér á landi til að gera það að verkum að litla stúlkan er fædd inn í eitt allra öruggasta og besta þjóðfélag sem til er á jarðríki, þar sem hún getur vænst þess að fá tækifæri sem almennt bjóðast fæstum einstaklingum í heiminum, hvað þá af hennar eigin kyni.

Gat ég ekki annað en hugsað til þess þegar ég settist niður yfir frækinni baráttu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í fyrradag í leiknum gegn Frökkum, og fann gæsahúðina sem fylgir því iðulega þegar íþróttamenn, af báðum kynjum, ásamt áhorfendum, tóku kröftuglega undir fallegasta þjóðsöng heims, söng sem ólíkt mörgum öðrum kallar ekki eftir sigri yfir óvinum á blóðugum vígvelli, eða hreykir sér um of af afrekum eða jafnvel einkennum þjóðarinnar, heldur er innilegur lofsöngur til þess Guðs sem landið er helgað og bæn um blessun hans yfir land og þjóð.

Á sama tíma brosti undirritaður í kampinn með þá vitneskju að litla stúlkan, sem enn hefur ekki hlotið nafn, verður ekki fyrirfram skilgreind til þess að vera aðeins skemmtiatriði á hliðarlínunni meðan karlkyns jafnaldrar hennar styrkja sig og stæla á íþróttavöllum landsins, líkt og maður sér oft í bandarískum bíómyndum.

Með sína arfleifð, sterkviljaða foreldra, og forfeðra og -mæðra í allar áttir er engin hætta á öðru en þarna vaxi upp einstaklingur með bein í nefinu, líkt og við Íslendingar eigum blessunarlega gnótt af. Konum og körlum sem vilja gjöra rétt, og þola ei órétt, tilbúin til að berjast fyrir því að allir einstaklingar fái að njóta afraksturs eigin vinnu, og hæfileika, en séu ekki flokkaðir í dilka eftir kyni, útliti, trú eða öðru til að uppfylla annarra kröfur og væntingar.