Grunnurinn að framþróun er nýsköpun og nýting gagna. Möguleikar hins stafræna hafa gríðarmikil áhrif en með nýjum lausnum, gagnvirkni og greind eru aðgengilegir snjallir möguleikar til viðskipta og þjónustu. Fersk og beitt færi í því hvernig við komum til móts við markaðinn, aukum sölu og bætum upplifun til framtíðar.

Viðskiptavinir eru við stjórnvölinn en fyrirtæki hafa allt í hendi sér, kjósi þau að svo. Nýta færin og læra nýjar leiðir og leikreglur. Kemur ekki á óvart, þróun og vísbendingar hafa borið að sama brunni undanfarið. Annaðhvort ert þú með eða ekki. Þurfum öll að vera snjöll í snjallþroskanum .

Til í breytingu og enn fleiri færi?

Þótt hugtakið „stafræn umbreyting“ hljómi þokukennt, eins og eitt af tískuorðunum sem sérfræðingar nota til að slá um sig með, er hún rökrétt framhald af þróun undanfarinna ára og þar sem árangur hefur náðst er hann greinilegur.

Þegar talað er um stafræna umbreytingu er m.a. átt við hvernig ný hugsun er innleidd og virkjuð. T.d. eitthvað gagnlegt, líkt og rafrænar heilsufarsskrár, einfaldara ferli við að nýta þjónustu sveitafélaga eða þróun í smásölu þar sem fyrirtækjum hefur með stafrænni hugsun tekist að bæta hefðbundna viðskiptaþætti og náð forskoti. Færi eru á spennandi og arðbærum breytingum hjá þeim sem leggja í verkefnið.

Ekki úllen dúllen doff

Stafræn umbreyting hefur umbylt tækifærum í viðskipta umönnun, samtali við viðskiptavini og hvernig mögulegt er að sníða samskipti að hverjum og einum, eftir óskum, þörfum og hegðun. Með því að leggja saman strategíu og gagnvirkni er mögulegt að byggja t.d. á kauphegðun viðskiptavina og nýta síðan þau gögn til að bjóða upp á persónulega svörun. Með gögn sem grunn er markaðsfólk ekki aðeins að kaupa fjölda dálka í prentmiðlum, heldur rekja áhugasvið einstakra viðskiptavina, koma með uppástungur og ráðleggingar og senda sérsniðin skilaboð sem hitta í mark og byggja á fyrri og líklegri hegðun. Enginn á að giska hvar áhugi markhópsins kann að liggja, þú hefur gögn.

Ekki eyða í vitleysu

Það er ekkert nýtt við að nýta möguleika gagnvirkni og gervigreindar til að gefa fólki val um hvaða upplýsingar það vill sjá og í hvaða röð. Til hvers að safna gögnum ef fyrirtæki ætla ekki að nýta þau? Gott aðgengi að gögnum hefur breytt allri aðferðafræði og fyrir sóknarfólk er eitt það besta einmitt tækifærin til að nýta gögn í bland við mannlegt hugmyndaflug og tilfinningagreind.

Ekki eyða peningum í vitleysu, gögn eiga að vera hluti af markmiðum alveg frá upphafi, allt frá hugmynd yfir í aðgerð. Fyrirtæki verða að þora að prófa sig áfram og taka smá áhættu og gera tilraunir, en læra af mistökum.

Tækifæri til tenginga og samtals

Mikil þróun er á sviði greininga og til eru verkfæri sem mögulegt er að nýta til að kalla fram gögn með hraðari og áreiðanlegri hætti en áður. Allt hjálpar þetta við að taka ákvarðanir sem styrkja fyrirtæki í sókn. Viðskiptavinurinn er ekki aðgerðalaus áhorfandi, blandar sér í leikinn og krefst svara þar sem hann er staddur.

Nýtum þá stafrænu möguleika sem til eru og fela í sér gagnvirkni sem umbyltir umfangi og eðli þess hvernig snjöll fyrirtæki nálgast viðskiptavini sína. Förum ekki á mis við tækifæri til tenginga og samtals.

Nýtum mannauð, þar sem mannauðs er þörf

Það er alltaf hætta á því að detta í „ computer says no “- hugsunarhátt en allir hafa möguleika á framförum - ef þau ætla sér það.

Þegar sjálfvirkni kemur saman við rýni á ferðalagi viðskiptavina, er mögulegt koma inn með leiðir sem kalla ekki endilega á hjálp mannshandarinnar. Í boði eru möguleikar þar sem spjallmenni geta tekið yfir hlutverk í grunnþjónustu og bætt svörun og framleiðni. Mikilvægast er að skoða tækifærin í því hvaða endurtekningarstörf er hægt að færa frá starfsmanni og nota mannauðinn til að vinna í mannlegum samskiptum, þar sem reynir á tilfinningagreind og frjóa hugsun.

Blanda af því besta

Stafræn umbreyting hefur áhrif á stórt svið viðskipta, lykilinn er að skilja hvað felst í breytingunni, að vilja læra og tryggja að fyrirtækið hafi yfir að ráða tækni, hugsun og hæfileikum.

Þetta á að vera áskorun, sérstaklega þar sem búið er að fjárfesta í ferlum, kerfum og menningu. Þarf ekki að vera að sofnað hafi verið á verðinum, hugsanlega hefur forgangsröðunin verið önnur en það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að keyra allt í gang. Hvað þarf að gera, er eitthvað staðnað og stíft, hugsanlega þarf að kollvarpa núgildandi módeli. Um er að ræða framtíðarrekstur og rekstrarhæfni

Má ekki nálgast þetta á nýjan hátt?

Hvað má bjóða þér, kæri viðskiptavinur? Ef þú skoðar gögn og spyrð mannauðinn þá er líklegt að svarið sé til staðar. Verum snjöll og byggjum á reynslu og þekkingu en sækjum fram. Ef þú stendur þig að því að segja, „hefur þetta ekki bara alltaf virkað svona“ – þá eru mjög líklega færi til framfara.

Höfundur er forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum.