Hvað þýðir frelsi þessa dagana á tímum heimsfaraldurs sem hefur haft stórkostleg áhrif á líf allra jarðarbúa þar sem áður óþekkt veira er svo mikil ógn við samfélög og heiminn allan að stjórnvöldum er heimilt að grípa til jafn takmarkandi ráðstafana og gert hefur verið? Hlutir sem okkur þóttu sjálfsagðir eru ekki svo sjálfsagðir lengur.

Við höfum upplifað að mega ekki hitta ástvini, fara til vinnu eða njóta þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða og allt breyttist þetta án fyrirvara.

Setningin enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur á vel við, eða erum við kannski að upphefja hluti sem við höfum misst sem skipta okkur raunverulega ekki það miklu máli en finnst þægilegt að hafa aðgengi að? Þegar vegið er að frelsi mannsins er það ein mesta ógn sem hver manneskja getur orðið fyrir. Frelsið var í raun ekki tekið frá okkur heldur var skilgreining okkar tekin og hún endurskilgreind.

Þess vegna megum við ekki gleyma því að mikilvægasti þáttur frelsisins er enn til staðar, persónufrelsið, frelsi til athafna (þó vissulega takmarkað núna), frelsi til að tjá okkur, frelsi til að elska, til að njóta, frelsi til að dreyma og hlakka til verður aldrei tekið frá okkur. Þetta kennir okkur að endurmeta gildin okkar og það sem skiptir okkur raunverulega máli.

Við höfum frelsi yfir okkur sjálfum, hvernig viðhorf við veljum okkur, hvernig við ákveðum að næra okkur, sofa eða hreyfa okkur, hvort við öflum okkur nýrrar þekkingar, hvernig við bregðumst við þessu ástandi og erum í samskiptum við aðra.

Frelsi fyrir mér þýðir að ég geti verið ég sjálf, hef frelsi til að skapa og ég hef frelsi til að velja, og því er eins gott að velja vel. Ert þú að fara vel með þitt persónulega frelsi?

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir er framkvæmdastjóri ÍMARK.