Jón Gnarr er orðinn leiður á því að keyra frá Reykjavík til Akureyrar þar sem hann leikur Skugga-Svein þessa dagana og þykir of dýrt að fljúga. Hann vill því að lögð verði lest á milli höfuðborgarinnar og höfuðstaðs Norðurlands og stofnaður verði nýr stjórnmálaflokkur, Lestarflokkurinn.

Friðjón Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur tóku að sér hlutverk leiðinlega kallsins á Twitter og sögðu að þótt hugmyndin væri skemmtileg gæti hún tæplega staðið undir sér.

Að leggja lestarteina sé rándýrt og kosti alla jafna milljarða króna á hvern kílómetra. Framkvæmdakostnaðurinn yrði að minnsta kosti þúsund milljarðar króna. Lestarmiðinn þyrfti að kosta fleiri tugi þúsunda ef ekki mörg hundruð þúsund krónur, bara til að dekka vaxtagreiðslur af lánum af framkvæmdinni og þá væri rekstrarkostnaðurinn allur eftir.

Séu fjárhæðirnar settar í samhengi má byggja um 24 þúsund íbúðir fyrir þúsund milljarða sem er álíka margar íbúðir og byggja þarf hér á landi til ársins 2030. Þá hefur ekki tekist að fjármagna fluglest frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur sem þó er á mun styttri og fjölfarnari leið þar sem fjárfestar töldu lestina ekki standa undir sér.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .