Í dag tekur ný ríkisstjórn til starfa. Tekur hún við stjórnartaumunum í einni lengstu uppsveiflu Íslandssögunnar sem til tilbreytingar byggir ekki á skuldsetningu. Staða íslenska hagkerfisins er ekki megin áhyggjuefnið í dag. Fremur er það staða ríkisfjármála og stefna til næstu ára sem veldur ugg.

Fyrir kosningar voru fyrirheit gefin, mörg í engu samræmi við stöðu opinberra fjármála. Það vakti furðu að flest snérust þau um að auka opinber útgjöld þó að þau séu nú þegar í hæstu hæðum. Lítið fór fyrir umræðu um betri nýtingu þeirra gríðarlegu fjárhæða sem almenningur greiðir í skatta eða mikilvægi þess að draga úr skattaálögum.

Þó að skattheimta sé ein sú mesta innan OECD. Þá voru hljómlitlar raddir sem töluðu fyrir niðurgreiðslu skulda þó að opinberar skuldir séu miklar og vaxtakostnaður einn sá mesti innan OECD.

Kæra ríkisstjórn, ábyrgð í uppsveiflu krefst hugrekkis og þors. Það er eðli máls samkvæmt auðveldara að uppfylla digurbarkaleg loforð þegar vel gengur en hafið í huga að uppsveiflur taka enda. Ekki skilja íslenskt samfélag eftir úti á berangri að uppsveiflu lokinni.

Hér er tékklisti til ykkar sem veganesti inn í þá vegferð sem framundan er:

  • Ekki eyða afganginum, skilið meiri afgangi. Búið í haginn fyrir verri tíma.
  • Ekki stunda þensluhvetjandi fjármálastefnu. Á góðæristímum þurfa ríkisfjármálin að vera aðhaldssöm.
  • Forgangsraðið innan þess útgjaldaramma sem fyrir er. Vandamálið er ekki skortur á fjármagni heldur nýting þeirra miklu fjármuna sem úr er að spila.
  • Ekki festa háa skatta í sessi. Það væri heillaskref að létta byrðarnar. Til að það sé hægt þarf að skapa rými á útgjaldahlið.
  • Greiðið áfram niður skuldir. Hafið í huga að ein lífsbjörg okkar Íslendinga árið 2008 var hversu lítið skuldsettur ríkissjóður var þegar efnahagsáfallið dundi yfir.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs SA.