Mér virðist hafa tekist að særa Jón Kaldal með athugasemdum við grein, sem hann birti hér í Viðskiptablaðinu, upp úr skýrslu Hagfræðistofnunar um sjókvíaeldi á Vestfjörðum og byggðaþróun. Hann segir að ég hafi dróttað að honum með því að saka hann um útlendingaandúð. Það er ekki nógu gott, en það er þó býsna erfitt að sjá eitthvað annað en meinfýsni í garð útlendinga í því sem hann hefur skrifað.

Fjölgun útlendinga um allt land

Það er vissulega hægt að segja að útlendingum hafi fjölgað meira en Íslendingum á Vestfjörðum á árunum 2014-2023. Það hefur reyndar gerst í þremur af hverjum fjórum sveitarfélögum á Ísland. Sumstaðar miklu meira en á þeim svæðum sem Jón beinir spjótum sínum að.

Það er líka hægt að segja að körlum hafi fjölgað meira en konum á Vestfjörðum, en það hefur reyndar líka gerst í 47 af 64 sveitarfélögum landsins á þessum tíma.

Engu skiptir í huga Jóns að íbúum hafi fjölgað á Vestfjörðum, þeir fái hærri laun, greiði hærri skatta og raunveruleg uppbygging sé hafin á því svæði. Á einhvern furðulegan hátt tekst Jóni að halda því fram að þessir erlendu starfsmenn líti á byggðirnar fyrir vestan sem verbúðir. Engan rökstuðning fyrir því er að finna í skýrslu Hagfræðistofnunar, enda væri það ósatt. Sjókvíaeldi býður upp á vel launuð og fjölbreytt heilsársstörf. Slík störf eru einmitt forsenda þess að fólk skjóti þar rótum.

Tilraun Jóns til að útskýra þessi hlutföll með fiskeldi er fásinna. Hvernig er hægt að útskýra verulega fækkun Íslendinga í Vestmannaeyjum, Hornafirði, Fjallabyggð og Grundarfirði, svo dæmi séu tekin? Er sú fækkun þá líka sjókvíaeldinu að kenna, þó sú starfsemi sé þar hvergi?

Fullorðnir karlar eru ekki á leikskóla

Íbúar í Vesturbyggð hafa ekki verið fleiri í tvo áratugi. Börn á leikskólaaldri hafa ekki verið fleiri í Vesturbyggð síðan um aldamótin. Það skýrir vonandi fyrir Jóni af hverju verið er að byggja nýja deild við leikskólann í bænum. Það er ekki gert fyrir alla útlensku karlana. Stækkun leikskólans er reyndar fjármögnuð að hluta með fjármunum úr fiskeldissjóði, sem þessi sömu hræðilegu fiskeldisfyrirtæki borga og munu að líkindum borga yfir milljarð króna í á þessu ári. En Jón vill ekki nefna þetta.

Af hverju enginn hagnaður?

Jón bendir ítrekað á að aðeins einu sinni hafi þessi fiskeldisfyrirtæki greitt tekjuskatt. Það er reyndar ósköp eðlilegt fyrir starfsemi í uppbyggingarfasa sem hefur fjárfest fyrir milljarða króna. Dæmin einskorðast ekki við fiskeldið. Kerecis hefur aðeins einu sinni í sögu fyrirtækisins greitt tekjuskatt. Er það þá til marks um að það sé fyrirtæki í ónýtum rekstri? Eða Alvotech, sem hefur aldrei greitt tekjuskatt? Allt þetta liggur fyrir í ársreikningum þessara fyrirtækja. Þar kemur líka fram sú mikla fjárfesting sem hefur átt sér stað síðustu ár og leggur grunn að verðmætasköpun til langrar framtíðar, til hagsbóta fyrir okkur öll sem hér búum.

Það er aðeins erfiðara að átta sig á skattgreiðslum veiðiréttarhafa. Það vill nefnilega svo undarlega til að veiðifélög, sem velta jafnvel hundruðum milljóna á ári, þurfa ekki að skila ársreikningum. Ekki frekar en að borga virðisaukaskatt af sölu veiðileyfa eða auðlindagjald af laxinum sem elst upp og tekur fæðu úr sameiginlegu hafsvæði okkar Íslendinga.

Bitið í skottið

Rétt þegar Jón er svo búinn að kvarta undan þessum „óvenjulega ógeðslegu aðdróttunum“ mínum lætur hann í það skína að þessir hræðilegu Norðmenn, sem eiga hlut í íslenskum fiskeldisfyrirtækjum, séu að reyna að svíkja undan skatti hér á landi með hækkun í hafi á aðföngum. Eins og annar þvættingur í grein Jóns, er þessi aðdróttun án nokkurs rökstuðnings eða sannana. Staðhæfingin gengur raunar einstaklega illa upp miðað við það sem Jón hefur sjálfur sagt, um að skattar af fiskeldi á Íslandi séu til muna lægri en í Noregi.

Dæmin í greinum Jóns eru reyndar miklu fleiri en við segjum þetta gott í bili með hugmynd fyrir hann: Prófaðu að tala við fólkið sem raunverulega býr á þessum stöðum. Það getur örugglega sagt þér hvað því finnst.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.