Upp úr aldamótunum 2000 réð Breska Olíufélagið (BP) áróðurs- og auglýsingaskrifstofuna Ogilvy & Mather til að bæta ímynd sína. Markmið verkefnisins var skýrt, að koma þeim skilaboðum á framfæri að ábyrgð á vinnslu og notkun kola, gas og olíu væri á herðum neytenda en ekki fyrirtækja eins og BP sem framleiða og selja vörur úr jarðefnaeldsneyti.

Forsvarsmönnum fyrirtækisins óraði ekki fyrir árangrinum en herferðin heltók bæði hjarta og heila neytenda á undraskömmum tíma og þótti svo árangursrík að hún er margverðlaunuð í markaðsbransanum. Önnur fyrirtæki í iðnaðinum fögnuðu ákaft en BP hafði í leiðinni breytt ásýnd iðnaðarins og fært umræðuna um ábyrgð á framleiðslu jarðefnaeldsneytis yfir á herðar neytenda. Gamall galdur sem hefur virkað vel í öðrum iðngreinum þar sem stórfyrirtæki í krafti fjármagns og pólitískra áhrifa hafa getað fengið sitt fram.

Loftlagsfótspor einstaklinga

Árið 2004 gekk fyrirtækið skrefinu lengra í áróðursherferð sinni og setti fram hugmyndina um loftlagsfótspor einstaklinga (Carbon footprint) og aftur með hjálp auglýsingastofunnar góðu. Þessi hugmynd átti að styrkja þá nálgun enn frekar að loftlagsbreytingar væru fyrst og fremst á ábyrgð einstaklinga sem neytenda. Nú gat hver og einn reiknað út fótsporið sitt og borið sig saman við aðra. Það að lifa sínu daglega lífi, fara í vinnuna, út að kaupa mat og ferðast var skyndilega orðinn stærsti valdur loftlagsbreytinga í huga almennings.

Nú er svo komið að ekki er þverfótað fyrir reiknivélum sem mæla loftlagsfótspor einstaklinga á vegum stjórnvalda, fyrirtækja og hagsmunahópa. Minna hefur farið fyrir reiknivélum fyrir fyrirtæki, en jákvætt var að sjá frétt í Viðskiptablaðinu nýlega um að íslenskt fyrirtæki Greenfo væri að þróa gervigreind til að mæla kolefnisfótspor fyrirtækja út frá fjárhagsbókhaldi. Frábært skref.

Loftlagskvíði er faraldur

Fjölmiðlar miðla fréttum á hverjum einasta degi um hrollvekjandi áhrif lofslagsbreytinga af manna völdum, um hækkun sjávarborðs, hlýnun sjávar, bráðnun jökla, vatnsskort, eyðimerkurmyndun, skógarelda og flóð. Við lesum einnig stöðugt í fjölmiðlum um áhrif loftslagsbreytinga á líðan fólks. Yngra fólk hefur miklar áhyggjur og líður illa vegna þessa ástands og krefst aðgerða, eldra fólki líður einnig illa, þó að fleiri í þeim hópi hafi tilhneigingu til að gera minna úr tilvist loftlagsbreytinga samkvæmt könnunum. Loftlagskvíði er orðinn að faraldri sem ekki sér fyrir endann á.

Eftir að hafa kennt námskeið um loftlagsbreytingar og sjálfbærni frá árinu 2007 hvort tveggja fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og nemendur North Eastern University í Boston og séð og fundið kvíða og áhyggjur unga fólksins vaxa með hverju árinu sem líður þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að tími sé kominn til að snúa umræðunni við og færa meira af ábyrgðinni þangað sem hún á heima.

Færum ábyrgðina til stórfyrirtækja og stjórnvalda

Samkvæmt nýrri könnun telja 93% Evrópubúa að loftslagsbreytingar séu mjög alvarleg ógn við mannkynið og 75% telja að stjórnvöld geri ekki nóg til að bregðast við vandanum. Hvert og eitt okkar skiptir máli í baráttunni gegn loftlagsbreytingum en við sem einstaklingar getum afskaplega lítil áhrif haft á hvað er framleitt og með hvaða hætti. Framleiðsluhagkerfi heimsins er drifið áfram af stórfyrirtækjum eins og BP sem eru með sína eigin dagskrá sem snýst um eigendur og hluthafa og virðast alveg blessunarlaus við loftlagskvíða. Þessu er hægt að breyta og hef ég verið að sjá og vinna með æ fleiri fyrirtækjum sem vilja leggja meiri áherslu á raunverulega sjálfbærni í sinni stefnumótun og aðgerðaráætlunum. Það er einnig kominn tími á stórar heildrænar aðgerðir stjórnvalda sem verða að stíga fæti fastar niður og hvetja fyrirtæki til að draga úr útstreymi og breyta framleiðsluferlum með hagrænum hvötum, sköttum og bönnum eftir því sem við á. Það er einnig á ábyrgð stjórnvalda að byggja hraðar upp innviði sem gera okkur kleift að lifa sjálfbæru lífi.

Við hin þessi með loftlagskvíðann munum halda áfram að leggja okkar af mörkum, fækka flugferðum, draga úr bílaeign, hjóla og ganga meira, borða minna kjöt en meira af grænmeti og kaupa minna drasl, en mikið væri nú gott að fyrirtækin og stjórnvöld myndu leggja meira af mörkum með raunverulegum aðgerðum því það er ekki í boði að draga lappirnar lengur.

Kristján Reykjalín Vigfússon er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í innleiðingu stefnumótunar.