Viðskiptablaðið birti fyrir nokkrum dögum furðulega grein undir yfirskriftinni „ Fórnarlambinu kennt um “. Þar er undirrituð sökuð um léttúð í mjög alvarlegu mál. Í upphafi greinarinnar segir: „Aukið brottfall drengja úr skóla og hreint út sagt skelfilegur árangur Íslands í PISA-könnunum þegar kemur að læsi drengja voru framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, Kristínu Ástgeirsdóttur, að umtalsefni í við- tali við Morgunblaðið á dögunum.“ Nú vill svo til að í umræddu viðtali (16. janúar 2017) var ekki minnst einu orði á PISA-kannanir né læsi drengja. Höfundur greinarinnar hefur greinilega ekki lesið viðtalið.

Það snérist um vaxandi kynjamun í menntun á háskólastigi. Þar er staðan þannig samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2015 að þegar menntun fólks á aldrinum 25-64 ára er skoðuð eru 46% kvenna með háskólamenntun en aðeins 31% karla. Þetta bil hefur vaxið ár frá ári. Árið 2005 voru 28% kvenna með háskólamenntun en 23% karla. Hvað er að gerast? Er nema von að spurt sé? Af hverju halda strákar ekki áfram námi á háskólastigi? Auðvitað er alls konar önnur menntun í boði og við þurfum fólk í alls konar störf en þessi mikli kynjamunur getur ekki talist eðlilegur. Í framhaldi af þessu spurði ég hvað væri að gerast í menningarheimi karla og kastaði því fram meira í gríni en alvöru (það má greinilega ekki) hvort alla stráka dreymdi kannski um að verða atvinnumenn í fótbolta og teldu sig ekki þurfa að mennta sig. Ég hef tekið eftir því þegar strákar eru spurðir hvað þeir ætla að gera þegar þeir verða stórir hve marga langar að verða fótboltamenn.

Könnun sem gerð var við Háskólann á Akureyri árið 2003 sýndi að fótboltinn var í fimmta sæti yfir þau störf sem strákar sáu fyrir sér. Fróðlegt væri að vita hver staðan er nú? Það er ekkert að því að láta sig dreyma ekki síst eftir glæsilegan árangur fótboltalandsliðanna okkar bæði hjá körlum og konum. Það alvarlega er ef einhverjir strákar hugsanlega, mögulega, kannski tengja slíka drauma við það að þeir þurfi ekki að mennta sig. Við þurfum á vel menntuðu fólki að halda. Eflaust er margt annað sem skýrir vaxandi kynjamun í menntun og hann þarf að rannsaka. Ég vil taka það fram að ég hef aldrei haldið því fram að íþróttamenn séu eitthvað minna menntaðir en aðrir. Ég sé ekki betur en að mjög margir fyrrverandi íþróttamenn standi sig frábærlega í atvinnulífinu og þjóðlífinu yfirleitt.

Mér finnst einfaldlega nauðsynlegt að ræða þennan kynjamun málefnalega og vissulega af alvöru í stað þess að slá fram alls konar vitleysu eins og þeirri að skólakerfið sé að reyna að gera stráka að stelpum (afsakið en hver er munurinn á kynjunum?) og að ekki sé talað um að snúa út úr orðum fólks og fabúlera alls konar vitleysu eins og greinarhöfundur Viðskiptablaðsins gerði. Blöð og blaðamenn bera mikla ábyrgð og þeir eiga að vinna í þágu sannleikans.

Höfundur er Jafnréttisstýra.