Það er ekki aðeins bankastjóri og bankaráð Landsbankans sem allt í sínu valdi til að auka ríkisvæðingu. Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála- og viðskiptaráðherra gefur þeim ekkert eftir og virðist í raun staðráðin í að ríkisvæða, eða að auka ríkisstyrki til, alls sem á vegi hennar verður.

Þannig hefur Lilja eins og frægt er orðið komið einkareknum fjölmiðlum landsins á ríkisjötuna í stað þess að tækla hið raunverulega vandamál á fjölmiðlamarkaði – síaukin umsvif Ríkisútvarpsins. Þar að auki hefur ráðherra einsett sér það að hækka heildarframlag til listamannalauna um 700 milljónir á ári og gera skattgreiðendum um leið að borga misgóðum listamönnum alls 1,6 milljarða króna í listamannalaun á ári. Þar að auki vinnur ráðherrann nú í því að stofna nýja Þjóðaróperu sem er áætlað að muni kosta skattgreiðendur um 800 milljónir króna á ári. Dæmin um fjáraustur ráðherrans í hin ýmsu gæluverkefni eru mun fleiri og nánast ótæmandi.

Nýjasta útspil Lilju komu hröfnunum þó verulega á óvart en í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði hún frá því að hún hafi sett 100 milljónir króna í „markaðssetningu til að svara og leiðrétta erlendan fréttaflutning um stöðuna á Íslandi í kjölfar eldsumbrotanna síðustu mánuði,“ eins og segir í frétt Vísis um málið. Peningurinn rennur til Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar sem fær alls 1,6 milljarða króna í framlag frá ríkinu á tímabilinu 2020-2024 samkvæmt þjónustusamningi, auk markaðsgjalds sem fyrirtækin í landinu greiða. Auk Íslandsstofu renna 100 milljónirnar til áhrifavalda og „fleiri aðila“.

Lilju hefur sem sagt tekist að gera áhrifavalda, starfsstétt sem hrafnarnir átti síst von á að myndu enda í hlýjum faðmi ríkisins, að enn einum styrkþegum ríkissjóðs. Vert er að taka fram að ríkissjóður hefur verið rekinn með tugmilljarða halla á ári hverju síðustu ár og fátt bendir til annars en að svo verði áfram næstu árin.

Eins gaman og hrafnarnir höfðu að því þegar RÚV réði til starfa fyrsta ríkisáhrifavald landsins, sem segir ungu fólki fréttir á Tiktok á skemmtilegan og sniðugan máta, velta þeir fyrir sér hversu langt samstarfsflokkar Lilju í ríkisstjórn, þá fyrst og síðast Sjálfstæðisflokkurinn, eru til í að leyfa henni að ganga í gegndarlausu útgjaldafylleríi.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.