Hrafnarnir lásu að Páll Gunnar Pálsson og hans fólk í Samkeppniseftirlitinu hefðu tilkynnt norsku laxeldisfyrirtækjunum SalMar og NTS að samruni þeirra væri nú til skoðunar í Borgartúninu.

Fyrirtækin eiga meirihluta í Arnarlaxi og Arctic Fish sem eru með laxeldi á Vestfjörðum. Að vísu hefur norska samkeppniseftirlitið lýst yfir að það geri ekki athugasemdir við samrunann og samkeppnisyfirvöld ESB eru að kanna málið.

Hrafnarnir sjá ekki hvað sérfræðingar Páls Gunnars hafa við málið að bæta ekki síst vegna þess að nánast öll framleiðsla fyrirtækjanna er seld á erlendum markaði. En vegir Samkeppniseftirlitsins eru að vísu órannsakanlegir.

Miðað við fyrri úrskurði eftirlitsins útiloka hrafnarnir þó ekki að niðurstaðan verði að sameinuðu fyrirtæki verði bannað að selja reyktan lax á Hvolsvelli og Lúðvík Bergvinsson verði fenginn til að fylgja málunum eftir.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. september 2022.