Vandi frumkvöðla er ekki skortur á hugmyndum heldur næstu skref. Hvernig eiga þeir að koma hugmyndum sínum á framfæri, finna fjárfesta og afla þekkingar á hættum viðskiptalífsins sem þeir standa frammi fyrir? Ég þekki það af eigin raun hversu dýrmætt það er að hafa stuðning frá umhverfinu hafandi verið frumkvöðull fyrir áratug. Það skipti okkur miklu máli á sínum tíma að fá tækifæri til að taka þátt í viðskiptahraðlinum Gullegginu á vegum Innovit. Það hjálpaði okkur í tengslamyndun við aðra frumkvöðla og fjárfesta.

Í Gullegginu lærði maður að vera óhræddur við að deila viðskipahugmynd sinni með öðrum og ekki síður hvernig er best að koma henni frá sér á sem skilvirkastan og mest grípandi hátt. Það er tilhneiging fólks að vera feimið við að segja frá hugmyndum sínum og fyrirætlunum. Eldskírnin fyrir mig og viðskiptafélaga minn var þegar við vorum sendar fyrir tilstilli Innovit á viðburð erlendis sem var að fyrirmynd Dragons Den og Shark Tank. Þar kynntum við viðskiptahugmynd okkar fyrir pallborði af fjárfestum og fullum sal af áhorfendum. Þetta ævintýri opnaði augu okkar fyrir mikilvægi þess að vera í tengslum við alþjóðaumhverfið og heyra hvernig umræða alþjóðlegra fjárfesta var. Þess vegna skiptir fræðsla og stuðningur samfélagsins við frumkvöðla miklu máli.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framgangi og uppbyggingu nýsköpunar á Íslandi síðastliðinn áratug. Á þessum tíma hefur nýsköpunarstarfið tekið stakkaskiptum með tilurð nýrra sprotafyrirtækja auk þess sem fjórir innlendir vísisjóðir hófu starfsemi upp úr 2015. Áhersla á nýsköpun hefur aukist í háskólum og viðskiptaklasar og -hraðlar af ýmsum toga hafa sprottið upp til handa frumkvöðlum. Ríkisvaldið hefur einnig stigið mörg góð skref að auknum stuðningi við nýsköpun og má þar meðal annars nefna stofnun Kríu sem gert er ráð fyrir að styðji við frumkvöðla og nýsköpun.

Áhugavert verður að fylgjast með þróun fjárfestinga í grænum lausnum og málefnum þeim tengdum. Græn málefni er eitthvað sem samfélagið kallar sífellt meira eftir enda hefur orðið góð þróun í þeim málum. Ívilnanir af hálfu stjórnvalda tengdar grænum fjárfestingum eru mikilvægar og geta orðið til þess að laða að fjárfesta. Styðja þarf áfram við þessa jákvæðu þróun því tækifærin og hugmyndirnar eru sannarlega til staðar. Nýsköpun er lykilþáttur í áframhaldandi framþróun og hagvexti framtíðarinnar. Spurningin er hvort samfélagið sái nægilegum fræjum til nýsköpunar í dag sem geta eftir tíu ár verið styrk stoð í íslensku atvinnulífi.

Nýsköpun er ekki aðeins eitthvað nýtt sem hefur ekki verið til áður eins og hugtakið sprotafyrirtæki gefur til kynna heldur einnig endurbætur á einhverju sem er þegar til staðar í starfandi fyrirtæki. Nýsköpun getur átt sér stað á öllum æviskeiðum og í öllum starfsþáttum fyrirtækjanna, s.s. verkferlum, framleiðsluaðferðum, sölu og markaðssetningu, stjórnarháttum og upplýsingatækni o.s.frv. Hvort sem um er að ræða nýstofnuð sprotafyrirtæki eða rótgróin fyrirtæki er nýsköpunin þeim báðum jafn mikilvæg. Fyrirtæki sem aðlaga sig ekki breyttum þörfum viðskiptavina sinna og ekki ákalli þeirra um samfélagslega ábyrgð eiga á hættu að verða undir í samkeppninni. Ef eitthvað, þá hefur COVID-19 hraðað mjög þessari þróun, m.a. þykir sjálfvirkni nú vera sjálfsagðari hlutur í hugum margra en áður.

Gríðarlegar tækniframfarir eru fram undan í öllum atvinnugreinum hvað varðar upplýsingatækni og stafrænar lausnir. Fyrirtæki þurfa að átta sig á þessari breytingu og bregðast við með því að vera með skýrar áherslur og sýn í þessari óhjákvæmilegu vegferð sinni. Eðli málsins samkvæmt eiga rótgróin fyrirtæki það á hættu að staðna eða vera svifasein til breytinga en það eitt getur aukið líkur á því að framtíð þeirra geti orðið erfið. Mörg fyrirtæki gera þetta vel og má þar m.a. nefna Icelandair en þar er mikil áhersla lögð á stafræna þróun og samfélagslega ábyrgð. Nú á tímum COVID-19 hefur fyrirtækið lagt aukna áherslu á stafræna vegferð sína sem kemur til með að verða lykilþáttur í því að takast á við krefjandi tíma og undirbúning fyrir framtíðina. Þótt hægt sé að skilgreina Icelandair sem rótgróið fyrirtæki er nýsköpun sannarlega í hávegum höfð í undirbúningi og aðlögun að nýrri og breyttri framtíð ferðaþjónustunnar. Slík vegferð krefst þess að rótgróin fyrirtæki horfi inn á við og hugsi hlutina upp á nýtt og endurskipuleggi sig út frá þörfum viðskiptavinarins. Það er vaxandi krafa starfsmanna fyrirtækja að þau geri þetta ásamt aukinni áherslu á heilbrigt vinnuumhverfi og síðast en ekki síst að fyrirtækið taki skýra afstöðu til samfélagslegrar ábyrgðar. Almennt er neytendum mjög annt um heiminn, jörðina og samfélagið og þess vegna þurfa fyrirtæki með vörumerki sín að huga að því hver samfélagslegu gildin þeirra eru og koma þeim skilaboðum á framfæri á heiðarlegan og einlægan hátt. Enn mikilvægara er að þessi loforð þeirra séu ekki bara í orði en einnig á borði með því að stjórnendur og starfsmenn þeirra starfi samkvæmt þeim.

Mikil trú er á íslenskri ferðaþjónustu og almenn sannfæring um að hún blómstri á ný eftir þessa krefjandi tíma enda er mikill áhugi á Íslandi hjá ferðamönnum víða um heim. Þeir munu skila sér aftur enda hefur landið einstaka sérstöðu í stórbrotinni náttúrufegurð og sjálfbærni. Ferðaþjónustan þarf að vera tilbúin til að taka á móti þessum ferðamönnum sem munu eflaust hafa breyttar áherslur og þarfir. Án efa mun landslag ferðaþjónustuiðnaðarins verða töluvert breytt frá því fyrir COVID-19 þar sem væntanlega má sjá áframhaldandi sameiningar smærri ferðaþjónustufyrirtækja. Tilhlökkun er fólgin í því að fylgjast með þeirri nýsköpun og þróun tækifæra sem munu verða í kjölfar COVID-19 og þeirrar enduruppbyggingar ferðaþjónustunnar sem kemur í kjölfarið. Það er sannfæring margra að hún muni koma sterk út úr þessu að lokum enda mikil tækifæri í henni fólgin. Í raun má setja þær krossgötur sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir í samhengi við boðskap bókarinnar „The Second Bounce of the Ball“ eftir Ronald Cohen sem vill meina að viðskipatækifæri „fyrstu umferðar“ séu fyrirsjáanleg en tækifærin leynist í „annarri umferðinni“ og það séu þeir sem nýta sér óvissuna henni tengdri sem uppskera. Ferðaþjónustan er búin að upplifa „fyrstu umferðina“ og eflaust er margt sem hefði mátt gera betur og margt sem hægt er að draga lærdóm af og því þarf að nýta þessa væntu „aðra umferð“ til þess að uppskera tækifæri ferðaþjónustunnar í framtíðinni.

Þetta leiðir til einnar niðurstöðu. Auka þarf fjárfestingu í menntun, hugmyndaauðgi og öðrum innviðum nýsköpunar. Fjárfesta þarf í framtíðinni með því að styðja þétt við nýsköpun í mismunandi atvinnugeirum og fyrirtækjum. Það kemur til með að stuðla að aukinni hagsæld, fjölgun starfa og sköpun aukinna verðmæta. Ef fræjum nýsköpunar er ekki sáð og þau ekki vökvuð má búast við að uppskera úr garðinum verði dræm.

Höfundur er forstöðumaður innanlandsflugs hjá Icelandair og stjórnarmaður hjá Birtu Lífeyrissjóði.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í mars. Hægt er að skrá sig í áskrift hér .