Þrátt fyrir löngun til að horfa bjartsýnisaugum á framvindu íslenskra efnahagsmála næstu misserin í ljósi kröftugrar einkaneyslu, viðsnúningi í ferðaþjónustu og aukinni fjárfestingu síðastliðið ár er óhjákvæmilegt að horfast í augu við versnandi þróun á alþjóðamörkuðum og huga að áhrifum hennar á íslenskt viðskiptalíf.

Dimmt yfir víða

Sjaldan hefur verið eins dimmt yfir okkar nærmörkuðum og nú. Þegar flestir héldu að efnahagsleg dýfa og „fordæmalausir tímar“ COVID-heimsfaraldurs væru að mestu yfirstaðnir réðust Rússar inn í Úkraínu sem olli einni mestu orkukreppu síðustu áratuga og sögulegum skorti á hrávörum auk þess mannúðarharmleiks sem stríðinu fylgir.

Framfærslukostnaður hefur hækkað mikið víðast hvar og viðskiptakjör versnað. Eitt stærsta iðnríki heims, Kína, glímir við efnahagslegar áskoranir og seinkanir í framleiðslu. Samdráttur í neyslu og hækkandi vaxtastig dregur úr hagvexti og eykur verðbólgu. Loftslagsbreytingarnar sem enn erfiðara er að hægja á í þessu umhverfi valda meiri þurrkum og fæðuskorti nú en nokkru sinni fyrr.

Engin kreppa er eins og því ekki hægt að bregðast við öllum á sama hátt.

Ísland fer ekki varhluta af þessu ástandi. Aukin verðbólga, hækkun vaxta, veiking krónunnar og óvissa um niðurstöður kjarasamninga (þegar þetta er ritað í desember) eru vissulega þættir sem hafa áhrif á horfur fyrir nýtt ár. Þrátt fyrir þetta má ekki gera lítið úr styrk landsins sem liggur í sjálfstæði okkar í orkumálum, áframhaldandi vexti í komu ferðamanna til landsins sem og kröftugum útflutningi á vörum, hugviti og þjónustu.

Prófsteinn núverandi stjórnenda

Sama hvaða land á í hlut er ljóst að þessir tímar eru prófsteinn fyrir núverandi kynslóð stjórnenda sem ekki hefur upplifað áskoranir af þessari stærðargráðu á umliðnum árum – jafnvel þótt reynsla af COVID-19 faraldrinum og fjármálakreppunni 2007-2008 nýtist mörgum.

Það getur því verið gagnlegt að horfa til þeirra eiginleika sem ráðgjafafyritækið McKinsey telur að leiðtogar og fyrirtæki sem munu skara fram úr á þessum víðsjárverðu tímum þurfi – en þeir segja leikbækur fortíðar aðeins vera í meðallagi gagnlegar.

Seigla lykillinn

Engin kreppa er eins og því ekki hægt að bregðast við öllum á sama hátt. Samkvæmt rannsókn McKinsey ræða stjórnendur fyrirtækja víða um heim sem stendur um seiglu sem grundvallarskilyrði til árangurs í síbreytilegu umhverfi. Hvernig fyrirtæki og stofnanir geti þróað þann eiginleika; verið vakandi fyrir því sem er handan við sjóndeildarhringinn og verið tilbúin til að standast áföll en um leið hafa getu til að nýta næsta tímabil tækifæra.

Sumir skilgreina seiglu sem hæfni til að ná sér fljótt á strik eftir mótbyr, en seigla er meira en það. Seigla er hæfileikinn til að takast á við mótlæti og áföll en á sama tíma aðlagast stöðugt og leggja grunn að vexti. Seig fyrirtæki ná sér betur og hraðar en önnur, og dafna áfram í ófyrirsjáanlegu umhverfi.

Fjögur einkenni fyrirtækja sem sýna seiglu á erfiðum tímum

Rannsókn McKinsey bendir til þess að fyrirtæki sem sýni seiglu geri m.a. fernt vel á óvissutímum:

  1. Þau nýta sviðsmyndagreiningar fremur en áætlanir og spár, bæði til lengri og skemmri tíma, og ná þannig að undirbúa sig betur en aðrir fyrir sveiflur og breytingar á markaði.
  2. Þau taka hraðar og stífar á framlegðarstigi til að efla og varðveita vaxtargetu sína t.d. með því að bæta gagnagreiningu þvert á starfsemi fyrirtækisins, endurskoða allan kostnað sem og aðfangakeðju.
  3. Þau endurskipuleggja og skapa aukið rekstrarlegt og fjárhagslegt andrými í efnahagsreikningum sínum með því að minnka skuldsetningu.
  4. Þau endurskoða stöðugt samkeppnisstöðu sína og leita að stefnumótandi tækifærum í breyttu umhverfi. Bregðast skjótt við með sölu eða yfirtökum þegar veður skipast í lofti.

Örlagaríkur tími

Stjórnendur fyrirtækja á Íslandi í dag standa frammi fyrir stórum ákvörðunum í efnahagslegri hringiðu samtímans sem snúast ekki aðeins um að lifa af – heldur dafna og skapa enn sterkari grundvöll fyrir farsælan vöxt til framtíðar.

Kreppur kalla á hugvit, þrótt og ákveðni sem leiðtogar þurfa að efla og virkja þvert á starfsfólk í öllum kimum fyrirtækja sinna. Ennfremur að byggja upp sveigjanlega og lipra skipulagsheild þar sem hlutverk og ábyrgð eru vel skilgreind, sem síðan gera fyrirtækinu kleift að skipta hratt um gír þegar ágjöf verður.

Sumir segja Íslendinga góða í að bregðast við krísum, en skorta úthald og langtímahugsun þegar þær eru yfirstaðnar. Seigla er vissulega einn þeirra eiginleika sem þá skipta máli.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út fimmtudaginn 29. desember.