Óðinn fjallaði í Viðskiptablaði gærdagsins um harmleikinn Íbúðalánasjóð. Nú er talið að framtíðartap af rekstri sjóðsins muni nema um 200 milljörðum króna verði ÍL sjóðurinn, sem tók við eignum og skuldum Íbúðalánasjóðs, rekinn áfram í óbreyttri mynd.

Óðinn fer yfir ástæðu tapsins sem var fyrirsjánlegt en margir vöruðu við þeirri leið sem farin var árið 2004 við fjármögnun sjóðsins. Óðinn rifjar upp að breytingin á Íbúðalánasjóði hafi verið gerð í kjölfar helsta kosningaloforðs Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar 2003 en ráðherrann yfir sjóðnum var framsóknarmaður, rétt eins og forstjóri sjóðsins.

Óðinn rifjar upp sín eigin orð frá árinu 2013 um að réttast væri að ná samningum við kröfuhafa sjóðsins meðan ávöxtunarkrafan á skuldabréfin væri há og tapið minna en ella. Svo fer Óðinn yfir þá leið sem fjármálaráðherra leggur til nú til að verði farin.

Hér er niðurlag pistilsins en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Sigur skattgreiðenda en tap lífeyrisþega

Þessi niðurstaða yrði auðvitað sigur skattgreiðandans og tap lífeyrisþegans. Sá maður er ekki sá sami því bótakerfin gera það að verkum að margir fá meira frá ríkinu en þeir greiða til þess í beinum sköttum.

Ef það tekst að loka á tap Íbúðalánasjóðs nú er komandi kynslóðum forðað frá því að bera tap vegna mistaka fyrri kynslóða þar með er þó ekki sagt að það sé réttlátt að þeir sem tapi lífeyrisréttindum eigi skilið að bera tap af röngum ákvörðunum og tómlæti stjórnmálamanna.

Þegar öllu er á botninn hvolft stendur það þó eftir að tapið er raunverulegt og einhver þarf að bera það, er þá best að það sé gert með að virkja einföldu ábyrgðina sem var lofað og loka á frekara tjón eða með að láta reka á reiðanum og láta tapið hlaðast upp áfram? Við því er sennilega ekki til neitt einhlítt svar og svarar væntanlega hver eftir sínum hagsmunum.

***

Það sem er líklega eina jákvæða við fjárhagslegt og hugmyndafræðilegt gjaldþrot Íbúðarlánasjóðs er að ekki nokkrum manni dettur í hug að setja slíkt apparat á stofn aftur.

Ekki einu sinni Jóhönnu Sigurðardóttur.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, fimmtudaginn 27. október 2022.