Það er nánast daglegt brauð í lífi blaðamanna að senda fyrirspurnir á stofnanir og fyrirtæki. Fram til þessa hefur það þótt fréttnæmt þegar slíkar fyrirspurnir leiða í ljós áhugaverðar upplýsingar.

Fréttablaðið virðist ætla að móta áður óþekkta stefnu í þessum málum. Það er að segja fréttir af því þegar blaðamenn taka sig til og spyrja að einhverju. Í Fréttablaðinu miðvikudaginn 22. febrúar birtist frétt undir eftirfarandi fyrirsögn: Seðlabankastjóri spurður um viðskipti starfsmanns. Með fréttinni birtist síðan áberandi andlitsmynd af Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra. Augljóst er að samspil fyrir-sagnar og myndar var ætlað að veita lesendum þau hughrif að Ás-geir væri í vandræðum vegna opinberrar eftirgrennslanar eftir einhverju vafasömu.

Síðan fylgja ítarlegar vangaveltur um viðskipti Hauks Benediktssonar, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabankans, og Steins Þór Guðgeirssonar lögmanns frá árinu 2019. Reytur Hauks og Steinars rugluðust þegar eignasafn Seðlabankans var starfrækt ásamt Lindarhvoli.

Í sjálfu sér gætu þessi viðskipti talist fréttnæm ef eitthvað áþreifanlegt væri komið fram um málið. Hins vegar fjallaði fréttin eingöngu um að Ólafur Arnarson, blaðamaður Fréttablaðsins, hefði sent fyrirspurn á Ásgeir seðlabankastjóra um viðskiptin og hvenær Seðlabankanum hefði verið kunngjört um þau. Ljóst er á skoðana-pistlum Fréttablaðsins, meðal annarra þeim sem Ólafur ritar undir nafni, að Ásgeir Jónsson nýtur ekki mikilla vinsælda á ritstjórnarskrifstofunni. En þarna er ansi langt seilst til að gera seðlabankastjóra tortryggilegan í augum lesenda.

Vissulega getur verið eðlilegt að fjölmiðlar veki athygli á því að þeir fái engin svör við fyrirspurnum sínum. En það sem vekur sérstaka athygli er að í veffrétt úr blaðinu þann daginn kemur fram að fyrirspurnin var send samdægurs og fréttin var skrifuð.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 2, mars 2023