Reykjavík er á fleygiferð – borgin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og það eru spennandi tímar framundan . Árið 2017 varð mesta íbúafjölgun í Reykjavík sem orðið hefur í 30 ár samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Við sjáum uppbyggingu í öllum hlutum borgarinnar, íbúarnir eru stórhuga og atvinnulífið er kraftmikið og skapandi.

Stjórn borgarinnar hefur einkennst af stefnufestu og skýrri framtíðarsýn fyrir Reykjavík. Jákvæður viðsnúningur hefur orðið í rekstri og skuldir hafa verið greiddar niður. Þar munar mestu um bættan hag Orkuveitunnar. Í þessum verkefnum einsog öðrum hafa borgarbúar notið góðs af því að búa við samhentan meirihluta fjögurra flokka í borgarstjórn. Til samanburðar má nefna að á yfirstandandi kjörtímabili borgarstjórnar hafa hins vegar setið fjórar ríkisstjórnir í landinu. Reykjavík er svo sannarlega á réttri leið og á næsta kjörtímabili getum við tekið stór skref áfram í átt að því að byggja upp nútímalegri og framsæknari borg.

Betra borgarskipulag

En hvernig er framtíðarsýn okkar fyrir Reykjavík? Við viljum nútímalega borg fyrir allskonar fólk þar sem engin er útundan . Við viljum fjölbreytta borg sem er skemmtileg og lifandi og að Reykjavík sé stolt höfuðborg með kröftugt, fjölbreytt atvinnulíf sem stenst alþjóðlega samkeppni. Þangað stefnum við ótrauð og þangað hefur Reykjavík stefnt á undanförnum árum. Ef við viljum ekki missa nýjar kynslóðir úr landi, þá verðum við að geta boðið upp á tækifæri fyrir alla.

Betri borg er þéttari borg í öllum hverfum til að skapa nægilegt bakland fyrir nærþjónustu, auka lífsgæði og styrkja hverfin. Kaffihús, bakarí og veitingahús í íbúahverfi getur aukið lífsgæði. Við viljum líka halda áfram að tengja hverfin betur saman til að auka skilvirkni og létta umferðina með fjölbreyttum lausnum í samgöngum. Fram til ársins 2040 má gera ráð fyrir því að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um 70 þúsund. Það er svipað og einn Kópavogur, einn Hafnarfjörður og hálfur Garðabær. Flestum ætti að vera að ljóst að til að bregðast við þessari miklu íbúafjölgun þurfum við fjölbreyttari ferðavenjur, framsýni og stefnufestu, - og öflugri almenningssamgöngur. Þar er Borgarlínan hryggjarstykkið.

Borgarlína hratt af stað

Borgarlína er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir Reykjavík – þetta sýna allir útreikningar og umferðarmódelin eru mjög afdráttarlaus hvað þetta varðar. Þess vegna ríkir samstaða um Borgarlínu hjá þeim sem best þekkja til og allar skoðanakannanir hafa sýnt eindreginn stuðning við verkefnið meðal Reykvíkinga. Borgarlína getur farið hratt af stað enda hefur framkvæmdin fullan stuðning ríkisstjórnarinnar og allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að samningar náist milli ríkis og sveitarfélaga um framgang Borgarlínu strax á þessu ári. Einnig liggur fyrir að um þessar mundir eru öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að staðfesta breytingu á svæðisskipulagi svæðisins um legu Borgarlínu. Hvort tveggja er mikið fagnaðarefni.

Mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar

Borgarlína og þéttari borg eru forsenda hvors annars. Umfangsmikil uppbygging íbúða á sér nú stað um alla borg. Stóra verkefnið á kjörtímabilinu sem lýkur eftir rúman mánuð, var að koma þessari kraftmiklu uppbyggingu af stað. Undanfarin þrjú ár hafa verið metár í útgáfu nýrra byggingarleyfa og aldrei hafa fleiri íbúðir farið í uppbyggingu í Reykjavík á einu kjörtímabili. Aukið framboð hefur leitt til þess að markaðurinn virðist vera að ná jafnvægi á nýjan leik en þó er enn mikil eftirspurn eftir hagkvæmu húsnæði og mikilvægt að uppbyggingin haldi áfram af krafti.

Fyrir kosningar árið 2014 sögðumst við ætla að koma af stað 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðum af stað. Ljóst er að það markmið mun nást og gott betur. Staðfest áform félaga sem ekki starfa í hagnaðarskyni telja rúmar 4000 íbúðir og yfir 3000 þeirra verða komnar í byggingu innan fimm ára markmiðsins. Við viljum halda áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili og leggja áfram áherslu á hagkvæmt húsnæði á eftirsóttum stöðum í borginni. Þar er eftirspurnin ennþá mikil og við viljum í næstu hrinu lóðaúthlutana koma sérstaklega til móts við ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Áfram ekki afturábak

Kosningarnar í vor skipta miklu máli fyrir framtíð Reykjavíkur og valkostirnir eru einstaklega skýrir að þessu sinni. Samfylkingin býður áframhaldandi stefnufestu og sterka framtíðarsýn fyrir Reykjavík. Við munum kynna kosningastefnu okkar á laugardaginn næstkomandi í Gamla bíó kl. 13.00 og í kjölfarið byrjum við baráttuna af krafti. Það er til mikils að vinna því það er mikið að gerast í Reykjavík og það skiptir öllu máli að vita hvert stefnir. Við viljum fara áfram – ekki afturábak og óskum eftir stuðningi borgarbúa við þá stefnu.

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar og borgarstjóri í Reykjavík.