Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglar, standa fyrir mótorhjólasýningu um páskana í tilefni af 40 ára afmæli samtakanna. Sýningin verður haldin í Porsche salnum hjá Bílabúð Benna, Krókhálsi 9 og stendur yfir dagana 29. mars til 1. apríl frá kl 10-18.

Í tilkynningu segir að mikið hafi verið lagt í sýninguna en 130 mótorhjól verða sýnd auk nýrra mótorhjóla frá umboðunum. Margir sýningargripir hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir áður.

Þessi mynd er tekin 1991 vegna sjónvarpsauglýsingar sem Bifhjólasamtök Lýðveldisins voru fengin til að leika í.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, voru formlega stofnuð 1. apríl 1984 af tuttugu manna hópi og telja meðlimir Sniglanna nú um 2.700 manns. Í Sniglunum er fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins.

Á fjórum áratugum hafa hafa þúsundir einstaklinga tekið þátt í starfsemi félagsins, sér til gamans og í hagsmunagæslu fyrir bifhjólamenn. Ár hvert hafa Sniglarnir meðal annars verið áberandi í hópakstri á 1. maí og hafa nálægt tvö þúsund manns mætt í hópaksturinn.