„Íþróttin er að vaxa mjög hratt tekjulega séð,“ segir Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi og sérfræðingur um fjármál í íþróttum, þegar hann er spurður út í krikket.

Íþróttin, sem kemur upphaflega frá Bretlandi, hefur tekið talsverðum breytingum frá því að byrjað var að spila íþróttina á alþjóðavettvangi á 19. öld. Lengi vel var hefðin sú að krikketleikur færi fram á 5 eða 6 dögum.

Með stofnun indversku úrvalsdeildarinnar (Indian Premier League/IPL), sem spilar eftir svokölluðu T20 fyrirkomulagi þar sem meðalleikur tekur um þrjár klukkustundir, jukust vinsældir og vaxtamöguleikar íþróttarinnar.

Sjö af tíu liðum metin á milljarð dala eða meira

Tíu lið spila í IPL og er verðmæti liðanna ekki ósvipað stóru knattspyrnuliðunum. Þó eru þessi stærstu krikketlið ekki jafn mörg og stærstu liðin í enska fótboltanum.

„Að því leytinu til er krikketið kannski ekki með sama hætti alþjóðlega stór íþrótt eins og fótboltinn. En þegar við áætlum verðmæti IPL og félaga deildarinnar og lítum til þessa stóru samninga, þá er IPL búin að vaxa það hratt að hún er á pari við stærstu íþróttadeildirnar," segir Björn.

Sjö af tíu liðum deildarinnar eru metin á milljarð dala eða meira. Verðmætasta félag deildarinnar er Mumbai Indians, en félagið er metið á 1,3 milljarða dala. Þar á eftir kemur Chennai Super Kings sem er metið á 1,15 milljarða dala. Félögin tvö eru þau sigursælustu í sögu IPL, með fimm titla hvor.

Gujarat Titans unnu titilinn í fyrra í fyrsta skipti, en félagið er verðminnsta félag deildarinnar, metið á 850 milljónir dala, um 120 milljarða króna. Félagið komst aftur í úrslit í lok maí síðastliðnum þar sem þeir lutu lægra haldi fyrir Chennai Super Kings.

Hvaðan koma peningarnir?

Nýir sjónvarpssamningar indversku úrvalsdeildarinnar tóku gildi á þessu ári, og gilda þeir til fimm ára, eða til og með tímabilsins 2027. Voru sjónvarpsréttindi að deildinni þá seld á metupphæð, um 6 milljarða dala, eða um 850 milljarða króna.

Star India, sjónvarpsstöð í eigu Disney, og indverska fjölmiðlafyrirtækið Viacom18, í meirihlutaeigu indverska auðjöfursins Mukesh Ambani, greiddu hvor um sig rúmlega þrjá milljarða dali fyrir sjónvarpsréttindi að deildinni. Markaðsvirði IPL jókst um 77% við samningana og nemur virði deildarinnar nú 11 milljörðum dala, eða sem nemur 1.550 milljörðum króna.

„Við sjáum að deildin er að fá meira en milljarð dala á ári í sjónvarpstekjur. Sá peningur seytlar til félaga og leikmanna. Nú eru fjögur ár í endurskoðun samningsins og það verður áhugavert að sjá hvort nýjasti samningurinn hafi skilað sjónvarpsfyrirtækjunum tekjum á fimm árum sem réttlætir það að borga þessa sex milljarða dala.“

Fjallað er nánar um fjármál krikketsins í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun.