BMW iX er nýtt flaggskip rafbíla þýska lúxusbílaframleiðandans og stendur vel undir því nafni enda fallegasti fákur en einnig mjög framúrstefnulegur í hönnun.

Það er samt fátt sem gefur til kynna að maður sé að keyra BMW. Útlitið er nútímalegt með flottum fram- og afturljósum sem eru samt minni en BMW hefur nokkru sinni framleitt. Lóðrétt grillið er allt öðruvísi en maður á að venjast hjá BMW. Klassíska nýrnagrillið hefur allavega tekið allmiklum breytingum. Innfelld hurðarhandföngin og rammalausar hurðir eru til marks um nútímalega hönnun.

Mínímalískur og framúrstefnulegur að innan
Innra rýmið er mínímalískt og framúrstefnulegt svo ekki sé meira sagt. Miðstokkurinn er frístandandi og eiginlega fljótandi um innra rýmið. Mælaborðið er frekar flatt hannað en töff. Stýrið er mjög sérstakt í laginu og ekki allra.

Bíllinn er afar rúmgóður bæði frammí og afturí og búinn mjög góðum þægindabúnaði í alla staði. Það fer sérlega vel um ökumann og fjóra farþega ef bíllinn er þéttsetinn. Sætin eru mjög þægileg og góð.

Tveir stórir og bogadregnir skjáir eru áberandi í mælaborðinu, annar 15“ og hinn 12,3“ og það er óhætt að segja að BMW iX sé mjög tæknivæddur bíll. Afþreyingarkerfið er framúrskarandi og með því besta sem ég upplifað hingað til.

Aðalstjórnunareiningin er glerungs iDrive stýring á miðstokknum sem er römmuð inn í fallegu stjórnborði úr viði. Gírskiptingin er skemmtilega hönnuð. Sætisstillingarnar eru eins og demantar í innanverðum hurðum. Hurðaopnunin er sérstaklega þægileg, maður ýtir bara á takka og þær opnast.

Tvær útfærslur sem skila 426 km eða 630 km drægni
Heilt yfir er innanrýmið fagurlega hannað þótt það sé mjög nýstárlegt. Þetta er svolítið eins og bíll úr framtíðinni. Mér verður hugsað til kvikmyndarinnar klassísku Back to the Future. Og það er dálítið merkilegt finnst mér að hinn íhaldssami bílaframleiðandi BMW skuli koma fram þennan djarfa bíl sem vekur sannarlega athygli þótt hann sé ekki allra og sértaklega ekki allra hinna fjölmörgu BMW aðdáanda eins og ég tel sjálfan mig flokkast undir.

En tímarnir breytast og mennirnir með og það má líka hrósa þeim í München fyrir að þora að taka af skarið og hanna svo framúrstefnulegan BMW bíl. Með þessu má segja að hönnuðir framleiðandans endurhugsi hönnun upp á nýtt með iX.

BMW iX er fjórhjóladrifinn og 100% rafknúinn. Hann er í boði í tveimur mismunandi útfærslum hvað afköst varðar; annars vegar BMW iX xDrive40 og hins vegar BMW iX xDrive50 sem skila 426 km eða 630 km drægni. Báðar gerðir eru fáanlegar í nokkrum mismunandi búnaðarútfærslum; Atelier, Loft, Suite Sport og Lounch Edition.

Nánar er fjallað um bílinn í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .