Laugardaginn 3.júní kl. 14:00 munu dyr Gallerí Fold opna fyrir gestum á sýningu á dúkristum Ástu Sigurðardóttur. En dúkristirnar prýddu smásagnarsafn hennar Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns.

Sýningin er unnin í samstarfi við afkomendur Ástu en þau hafa fengið til liðs við sig grafíklistamanninn Guðmund Ármann sem þrykkti 50 eintök af hverri mynd sem talið er að sé til eftir Ástu. Verkin verða til sölu í Galleríinu á meðan sýningu stendur.

Ekki er vitað til þess að það séu til fleiri verk af dúkristum Ástu en þau sem eru í prentun bókarinnar. Það má því segja að verk Ástu séu risin upp úr bókunum.

Listakonan Ásta Sigurðardóttir varð „fræg á einni nóttu“ þegar smásaga hennar Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns kom út í tímaritinu Líf og list árið 1951. Ásta var þá 21 árs gömul.

Það hefur farið minna fyrir myndlistarkonunni Ástu en skáldkonunni. En Ásta var afar hæfileikarík og fjölhæf listakona. Hún vann um tíma í leirkeraverksmiðjunni Funa þar sem hún fékkst við listskreytingar á leirkerum. Hún fékkst einnig við málaralist, teikningu og grafík, auk þess sem hún myndskreytti og hannaði spil með teikningum af íslenskum þjóðsagnapersónum.

Henni lánaðist þó ekki að ljúka við spilin, en þau voru gefin út í fyrsta skipti fyrir jólin 2022 af Forlaginu, fyrir tilstuðlan afkomenda hennar. Og nú hafa afkomendur hennar einnig staðið fyrir því að endurvekja dúkristur móður sinnar.

Dúkristurnar eru allar svartar í grunninn, sem kannski gerir þær drungalegar við fyrstu sýn, enda voru þær unnar til að styðja við tragískan og myrkan undirtón í sögum Ástu. Grófleiki, hvöss og kassalaga form einkenna dúkristurnar, sér í lagi þegar Ásta teiknar karlmenn. Formin mýkjast þegar hún teiknar konur og sérstaklega börn.

Smásagnasafn Ástu er afar fallegt og heildstætt listaverk sem sýnir að Ásta var ekki síðri myndlistarkona en rithöfundur og gaman að rýna í texta hennar út frá því samhengi, því oft flæðir myndmálið inn í textann og í sögum hennar má finna margar einstaklega myndrænar og kyngimagnaðar lýsingar.

Þó dúkristur Ástu standi fyllilega sem sjálfstæð listaverk þá öðlast þær dýpri merkingu í samhengi við sögur hennar. Það er óskandi að þær verði listunnendum hvatning til að lesa sögurnar hennar Ástu, en hún var sjálf afar vel lesin.

Sýningin stendur til 24. júní.