Adidas Al Rihla er HM boltinn á mótinu í Katar sem hófst á sunnudaginn. Hann, ásamt 70% af öllum fótboltum heims, er framleiddur í borginni Sialkot í norðaustur Pakistan.

Um 60 þúsund manns af ríflega 740 þúsund íbúum Sialkot, eða um 8% íbúa borgarinnar, starfa í kringum framleiðslu á fótboltum.

Í umfjöllun Bloomberg segir að 80% fótboltum í Sialkot séu framleiddir með handsaumi, vinnuaflsfreks ferlis sem gerir boltana slitþolnari og gefur þeim meiri stöðugleika í loftinu. Saumarnir eru dýpri og þráðurinn spenntari en í þeim boltum sem saumaðir eru með vél.

Saumafólk hjá boltaframleiðandanum Anwar Khawaja Industries, fær greitt um 160 rúpíur eða um 100 krónur fyrir hvern bolta. Það tekur um þrjá klukkutíma að sauma hvern bolta. Starfsmenn sem sauma þrjá bolta á dag fá því um 9.600 rúpíur á mánuði eða um 6.100 krónur.

„Jafnvel fyrir fátækt svæði eru launin lág,“ segir í frétt Bloomberg. Að mati rannsakenda geta 20 þúsund rúpíur, sem samsvarar 12,7 þúsund krónum, talist lífvænleg laun í Sialkot.

Tveir boltar yfir daginn og einn á kvöldin

Meirihluti starfsmanna eru konur. Á hefðbundnum degi sauma þær tvo bolta, snúa heim til að elda fyrir börnin, og halda svo áfram að vinna í nálægu þorpi á kvöldin. Karlarnir koma yfirleitt að framleiðsluferlinu á öðrum stigum, t.d. taka saman efnivið eða koma að gæðaprófun.

Þar til komið var á vinnumarkaðslöggjöf árið 1997, störfuðu börn alveg niður að 5 ára aldri við hlið foreldra sinna í verksmiðjunum í Sialkot.

Í skýrslu frá árinu 2016 er barnavinnubanninu lýst sem ógn gegn iðnaðinum í Sialkot þar sem það hafi „fjarlægt stóran hluta tilvonandi sérhæfðs vinnuafls heillar kynslóðar“ og þannig leitt til skorts á vinnuafli.

Frá Sialkot í Pakistan.
© epa (epa)