Nýr Kia Niro sportjeppi var frumsýndur nýverið hér á landi. Þetta er þriðja kynslóð Niro sem hefur verið einn vinsælasti bíll frá Kia á Íslandi. Kia Niro mætir nú til leiks með nýtt útlit og enn rafmagnaðri en áður. Bíllinn var prófaður í Frankfurt í Þýskalandi síðla sumars en þangað var bílablaðamönnum boðið til að prófa gripinn.

Hönnunin á nýjum Kia Niro er mikið breytt frá fyrri gerð. Hönnunin er framúrstefnuleg og djörf og ber að mörgu leyti keim af HabaNiro hugmyndabílnum sem kynntur var 2019. Yfirbyggingin á nýjum Kia Niro er rennileg og sportleg. Tvöfalt brot í vélarhlífinni undirstrikar heildarútlit bílsins að framan og dregur athygli að Heartbeat dagsljósabúnaðinum. Áberandi í hönnun er tvílitt grillið með sexhyrndu mynstri og breiður samlitur stuðari með hleðsluinntaki fyrir miðju.

Þrjár útfærslur í boði

Nýr Kia Niro er í boði í þremur útfærslum; sem hreinn 100% rafbíll með allt að 460 km drægi á rafmagninu, með tengiltvinntækni (Plug-in Hybrid) og tvinntækni (Hybrid). Tengil-tvinnbíllinn er með allt að 65 km drægni á rafmagninu áður en bensínvélin tekur við. Tengiltvinnvélin skilar 183 hestöflum. Tvinnvélin skilar 142 hestafli.

Kia býður nú upp á Greenzone akstursstillingu sem sjálfkrafa færir akstur í Plug-in Hybrid og Hybrid útfærslunum í fullan EV rafakstur þegar við á til að auka sjálfbærni möguleika bílsins.

Niro var prófaður í Þýskalandi í öllum þremur útfærslunum og kemur vel út í þeim öllum. Aðaláherslan var lögð á rafbílinn í EV útfærslu enda er það sá bíll sem á eftir að verða án efa vinsælastur á Íslandi á komandi misserum. Niro kostar frá 6.290.777 kr.

Nánar er fjallað um Kia Niro sportjeppan í Bílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins.