Gestir upplifðu einstakt sjónarspil á sýningu Bláa Lónsins og Þórdísar Zoega á HönnunarMars hátíðinni sem haldin var dagana 3. - 7. mars sl. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fjöldi fólks lagði leið sína á Hafnartorg og kynnti sér hönnunarsögu félagsins sem hefur átt sinn þátt í að móta vegferð þess sem alþjóðlegt vörumerki - allt frá stofnun fyrir rúmum 30 árum.

Bláa Lónið tók þátt í HönnunarMars í ár með sýningunni „Afgangs auðlind verður að veröld vellíðanar" á Hafnartorgi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Arkitektúr og hönnun – leiðarstef frá upphafi

Sýningarrýmið að Kolagötu á Hafnartorgi sýndi gestum hvernig félagið hefur frá fyrsta degi notað hönnun til að þróa og skapa þær vörur og upplifanir sem mótað hafa hina einstöku veröld Bláa Lónsins í rúmlega 30 ár, og um leið hvernig Bláa Lónið hefur þróast sem vörumerki, frá áningarstað yfir í alþjóðlegt vörumerki.

Þessi saga var þar rakin í máli og myndum, með módelum og sýnishornum af ýmis konar hönnunarmunum fyrri ára í sögu félagsins, en alls hafa meira en 70 hönnuðir komið að hönnunarsögu Bláa Lónsins og voru þeir sérstaklega heiðraðir við þetta tilefni.

„Arkitektúr og hönnun hafa frá upphafi verið lykilatriði og leiðarstef í uppbyggingu Bláa Lónsins, bæði hvað varðar vörur félagsins og upplifunarsvæði þess,“ segir Grímur Sæmundsen, stofnandi og forstjóri Bláa Lónsins um sýninguna.

„Það er þessari áherslu í starfsemi okkar að þakka að félagið hefur verið í forystu íslenskrar hönnunar í rúmlega þrjá áratugi og í tilefni af HönnunarMars vildum við einmitt þakka sérstaklega öllum þeim fjölmörgu hönnuðum sem hafa lagt sitt af mörkum á vegferð Bláa Lónsins sem einstakur áfangastaður upplifana í meira en 30 ár,“ bætir Grímur við.

Sýningarrýmið að Kolagötu á Hafnartorgi sýndi gestum hvernig Bláa lónið hefur þróast sem vörumerki á síðastliðnum þremur áratugum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Mistur – innsetning listakonunnar Þórdísar Erlu Zoëga

Á sýningunni gátu gestir einnig upplifað veröld Bláa Lónsins í umvefjandi innsetningu sem listakonan Þórdís Erla Zoëga hannaði í kringum sjónræna upplifun hennar af lóninu. Innsetningin nefndist „Mistur“ og óhætt er að segja að gestir hafi þar upplifað þar veröld Bláa Lónsins á alveg nýjan hátt.

Sýning Þórdísar Erlu Zoëga.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þórdís Erla útskrifaðist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012 og hefur sett upp sýningar í Berlín, Kaupmannahöfn, Amsterdam, Basel og víðar.

,,Þegar ég hugsa um Bláa lónið sé ég alltaf fyrir mér þykka hvíta gufu þar sem hún blandast í þennan djúpa ljósbláa lit sem einkennir lónið,“ segir Þórdís um verk sitt.

„Mannlegi þáttur lónsins er mjög sterkur, það er gaman að sjá skuggaverur af öðrum gestum í gegnum þokuna. Innsetningin er innblásin af samspili hins manngerða við hið náttúrulega og hvernig við bregðumst við hinu óvænta.“

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, og Þórdís Erla Zoëga listakona.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, ræddi við gesti.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður og einn eigenda auglýsingastofunnar Brandenburgar, mætti á Hafnartorg.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fjöldi fólks lagði leið sína á Hafnartorg.
© Aðsend mynd (AÐSEND)