Það verður spennandi morgundagur fyrir bílaáhugafólk því tveir bílar verða sýndir, annars vegar nýr sjö sæta Kia EV9 Earth og hins vegar Lexus LBX.

Kia EV9 Earth er með allt að 522 km drægni og 2.500 kg dráttargetu ásamt því að vera fjórhjóladrifinn og með rými fyrir alla fjölskylduna.

EV9 er með mikla drægni á rafmagni og hentar því sérlega vel fyrir ferðalög. Allir EV9 eru með V2L-búnaðinn sem gerir honum kleift að gefa frá sér raforku, til dæmis til að halda hleðslu á hjólhýsi eða gefa öðrum rafbílum stuð ef þörf er á.

Rafjeppinn hefur fengið viðurkenningar á borð við Gullna stýrið í flokknum Fjölskyldubíll ársins og Lúxusbíll ársins í Þýskalandi, sem undirstrikar mikla fjölhæfni EV9. EV9 er auk þess kominn í úrslit og tilnefndur sem bæði Besti bíll ársins og Rafmagnsbíll ársins á World Car Awards 2024.

Sigurvegarinn verður tilkynntur 27. mars nk. Þá vann hann einnig Women‘s Worldwide Car of the Year 2024 á dögunum þar sem hann var valinn bestur af kvenkyns bílablaðamönnum frá 52 löndum. Kia EV9 Earth verður sýndur kl. 12-16 á morgun laugardag í sýningarsal Kia að Krókhálsi 13.

EV9 er með mikla drægni á rafmagni og hentar því sérlega vel fyrir ferðalög.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Lexus línan fær skemmtilega viðbót um helgina þegar Lexus LBX verður kynntur til sögunnar hjá Lexus í Kauptúni. LBX er minnsti meðlimur Lexus-fjölskyldunnar, en gefur þeim stærri ekkert eftir í lúxus og þægindum.

Hann hefur þegar sannað ágæti sitt með því að vera valinn bíll ársins 2024 af breska bílatímaritinu What Car? LBX kemur í sjö útfærslum og skemmtilegum lita- og búnaðarsamsetningum.

Lexus LBX verður sýndur í Kauptúni á morgun, laugardag, kl. 12 – 16.