Þór Bæring Ólafsson er maður margra starfa en hann á og rekur ferðaskrifstofuna Komdu ásamt Braga Hinriki Magnússyni en sú ferðaskrifstofa sérhæfir sig í árshátíðarferðum fyrirtækja. Þór starfar einnig á útvarpsstöðinni K100 en þar stýrir hann morgunþættinum Ísland vaknar ásamt Kristínu Sif og Bolla Má alla virka morgna milli klukkan 6-10. Svo rekur hann bílavefinn, bilar365.is, enda er Þór mikill bílaáhuga maður.

,,Þessi áhugi minn á bílum byrjaði mjög snemma. Ég var byrjaður að taka strætó út um allan bæ þegar ég var 8 ára gamall og taka myndir af bílum. Allur minn peningur fór í það að framkalla filmurnar. Ég á margar möppur af myndum af bílum sem ég tók á þessum tíma,“ segir Þór.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Það verður að vera fyrsti bíllinn minn sem var svartur Toyota Corolla GT Twin Cam árgerð 1986. Svo hugljúf minning. Ég byrjaði að safna fyrir fyrsta bílnum 12 ára gamall og náði að staðgreiða þennan gæðing fyrir 590.000 krónur árið 1991. Ég var nánast á rúntinum alla daga fyrsta árið sem ég var með bílpróf. Það var svo gaman að keyra þennan bíl.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Það var án efa bílferð sem ég og Hulda konan mín fórum í saman fyrir nokkrum árum. Við leigðum okkur Ford Mustang blæjubíl í San Diego í Bandaríkjunum og var ferðinni heitið til Las Vegas. Stefnan var að setja blæjuna niður og keyra með vindinn í hárið alla leiðina en það tókst svo sannarlega ekki því það byrjaði að snjóa á leiðinni. Því miður bilaði blæjan og því þurftum við að keyra töluverðan spotta með blæjuna niðri í snjókomunni. Það sem það var horft á okkur.”

Nánar er rætt við um Þór í fylgiritinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu þann 13. mars síðastliðinn.