Marinó Fannar Pálsson stofnaði hópinn „Snjallheimili" á Facebook árið 2019. Hann var byrjaður að fikta við snjallvæðingu heimilis síns en fann engan vettvang þar sem hann gat spurt sér vitrari menn. Hópurinn hefur síðan vaxið úr fámennum hópi snjallnörda í breiðan hóp sem telur yfir 8 þúsund manns. Fjallað er um málið í sérblaðinu Heimili & framkvæmdir , sem fylgdi Viðskiptablaðinu og er opið öllum til lestrar.

Marinó segir margt áhugafólk í hópnum sem viti nokkurn veginn hvað það vill en veit ekki endilega hvernig það virkar eða hvernig það á að bera sig að. Hann segir algengast að fólk byrji að snjallvæða ljósin á heimilinu. Algengast sé að fólk sé með nokkurs konar snjallhöbb (e. hub), sem er í raun heilinn á bak við snjallheimilið, það er miðlægur punktur sem talar við allar snjallgræjur heimilisins.

„Margir byrja að kaupa sér startpakka með nokkrum ljósum og snjallhub þannig það geti farið að stýra þessu með símanum. Á því stigi er maður samt ekki alveg kominn með eiginlegan snjallfítus, bara snjalla peru. Það er ekki fyrr en öll ljósin eru orðin snöll sem „wow factorinn" kemur, þegar maður labbar út úr húsinu og öll ljós slökkna sjálfkrafa eða þegar maður er kominn í háttinn og sér að það er ljóstýra einhvers staðar í húsinu og maður getur tekið upp símann eða talað við hátalarann og slökkt ljósið," segir Marinó.

Kerfin geti verið takmarkandi

Við upphaf snjallvegferðarinnar segir Marinó mikilvægt að hugsa snjallvæðinguna heildstætt, svo fólk lendi ekki í of miklu flækjustigi með mörg ólík kerfi sem tala ekki saman.

„Það skiptir miklu máli að velja vel græjurnar vel. Það þarf að passa að þær séu opnar, það er að segja að þú sért ekki að læsa þig inni hjá einum framleiðanda og takmarka þig þannig við vörur frá viðkomandi. Þetta er svolítið eins og með símana, hvort sem þú ert með iPhone, Android eða Google síma, þá ert þú svolítið að takmarkaður við viðkomandi kerfi og stundum tala þau ekki saman. Þannig getur það líka verið í snjallheiminum, en það er hægt að kaupa höbb sem er frekar opinn. Þar hefur til dæmis Smartthings-höbbinn verið frekar vinsæll þar sem hann styður fjölbreyttar tegundir snjalltækja, en þó ekki allar. Þegar fjárfest er í snjallgræju þarf sömuleiði að athuga að hún passi við höbbinn á heimilinu, því það er alls ekki sjálfgefið þrátt fyrir að hann sé tiltölulega opinn."

Litlar snjallþjónustur spretta upp

„Það eru margir einyrkjar að spretta upp í kringum þetta, á borð við snjallt.is og snjallingur. is. Þetta eru svona lítil bílskúrsfyrirtæki sem bæði eru að selja græjur og mæta heim til fólks og setja allt upp. Það eru nefnilega margir í þeim sporum að treysta sér ekki í uppsetninguna en þegar hún er frágengin er ekkert mál að nota þetta. Ég setti svona upp, sem dæmi, í sumarbústaðnum hjá mömmu minni. Hún hefði ekki getað sett þetta upp sjálf en getur notað þetta, hún er bara með app í símanum sem stýrir öllu, kveikir ljósin og kveikir á ofnunum áður en hún leggur af stað upp í bústaðinn svo allt verður hlýtt og notalegt þegar hún kemur."

Sala snjallra heimilistækja margfaldast í Elko

Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri Elko, segir í samtali við Viðskitpablaðið að áhugi neytenda á öllu sem tengist snjallvæðingu heimilisins hafi aukist gríðarlega undanfarin ár.

Hann segir snjallryksugur hafa verið gríðarlega vinsælar í gegnum tíðina og að þær séu alltaf að verða snjallari. Þá séu snjallofnastillar vinsælir og dragi úr orkuþörf heimilisins auk þess að vera algjör bylting fyrir sumarbústaðareigendur.

„Sala á öryggismyndavélum hefur rúmlega fjórfaldast á milli ára og sala á snjallryksugum hefur hátt í sjöfaldast. Ring-dyrabjallan er einnig mjög vinsæl en með henni getur þú komið til dyra hvar sem þú ert staddur. Um leið og það er dinglað færð þú meldingu í símann þinn og getur rætt við viðkomandi hvort sem þú ert heima eða ekki. Í vöruúrval Elko var svo að bætast við ný vörulína fyrir snjallvæðingu heimilisins frá Nedis en í henni má finna hreyfiskynjara, reykskynjara, myndavélar, fóðurskammtara fyrir gæludýr og margt fleira."

Nánar er fjallað um málið í Heimili & framkvæmdir, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér .