Renault Kangoo hlaut alþjóðlegu verðlaunin „Sendibíll ársins“ 2022, eða „The International Van of the Year award“ (IVOTY), sem dómnefnd 24 evrópskra bílablaðamanna valdi. Varð Renault Kangoo hlutskarpastur í flokki minni sendibíla ásamt Mercedes-Benz Citan sem kepptu um titilinn með tólf öðrum sendibílum sem dómnefnd skoðaði í valinu.

Renault Kangoo kom fyrst á markað árið 1997 og önnur kynslóðin 10 árum síðar. Nú er þriðja kynslóð sendibílsins netta mætt til leiks og er tekin er til kostanna hér. Renault Kangoo hefur reynst traustur vinnufélagi í 25 ár og nýjasta kynslóðin virðist líklega til að halda vinsældunum gangandi.

Afkastamiklar og sparneytnar vélar

Renault Kangoo er í boði með afkastamiklum og sparneytnum vélum þar sem val er um annaðhvort 1,3 lítra TCe bensínvél eða 1,5 lítra Blue dCi dísilvél, sem boðnar eru með 6 gíra beinskiptingu eða 7 gíra EDC sjálfskiptingu. Kangoo er einnig í boði í 100% rafknúinni útfærslu sem er nýlega komin á markað. Kangoo rafbíllinn er búinn 90kW rafmótor og 45kWh rafhlöðu sem veitir ökumanni allt að 300 km akstursdrægni á hleðslunni og möguleikann til að hlaða allt að 170 viðbótarkílómetrum á rafhlöðuna á aðeins 30 mínútum.

Sendibíllinn með 1,5 lítra dísilvélinni var tekinn í reynsluakstur. Þetta er nettur og lipur bíll sem þægilegt er að keyra hvort sem er í innanbæjarakstri eða á þjóðveginum. Beinskiptingin er þýð og aksturseiginleikarnir góðir. Bíllinn er framhjóladrifinn. Dísilvélin skilar alls 95 hestöflum og það er þokkalegt afl í bílnum. Dísilvélin gefur extra tog og með beinskiptingunni er hægt að ná því besta út úr vélinni. Eyðslan er uppgefin frá 5,4 lítrum á hundraðið og CO2 losunin er 141 g/km. Kangoo stendur vel fyrir sínu og máltækið margur er knár þótt hann sé smár á vel við hér.

Þessi þriðja kynslóð Kangoo er byggð á CMF C / D grunni Renault-Nissan bandalagsins.

Fjallað er um málið í sérblaðinu Atvinnubílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni.