Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson hefur sett húsið sitt að Kvíslartunga 60 í Mosfellsbæ á sölu. Ásett verð fyrir 240 fermetra húsið er 149,5 milljónir króna eða um 622 þúsund krónur á fermetrann. Fasteignamat eignarinnar er 107 milljónir. Myndir af húsinu má finna á fasteignavef mbl.is.

Um er að ræða sex herbergja endaraðhús á tveimur hæðum, bílskúr og gufuhús. Í bakgarði má finna bæði heitan og kaldan pott. Húsið, sem var byggt árið 2008, inniheldur fjögur svefnherbergi.

„Húsið mitt fór í sölu í dag. Get vottað gríðarlega góða nágranna og einstaklega fjölskylduvænt umhverfi,“ skrifar Sigmar í færslu á Facebook.

Hann rekur Minigarðinn að Skútuvogi 2, situr í stjórn Atvinnufjelagsins og stýrir hlaðvarpinu 70 mínútur með Huga Halldórssyni. Viðskiptablaðið sagði frá því síðasta sumar að hann hefði selt Bryggjuna brugghús.