Alþjóðlegar dómnefndir bílasérfræðinga veittu nýja smart #1 tvenn virt hönnunarverðlaun á dögunum. Hinn rafknúni smábíll hlaut bæði Red Dot-verðlaunin fyrir vöruhönnun og iF Design-verðlaunin þar sem einblínt er á framúrskarandi hönnun og samfélagsþátttöku.

Við hönnun á smart #1 unnu alþjóðlegt hönnunarteymi Mercedes-Benz og rannsóknar- og þróunarteymi smart náið saman að því að kanna hið fullkomna jafnvægi á milli hönnunar innanrýmis og ytra byrðis og heildarafkasta smart #1. Hann er fyrirferðarlítill að utan, rúmgóður að innan og með allt að 440 km drægni á rafmagni.

Bíllinn er með stílhreint, fágað og straumlínulagað ytra byrði, sem er afrakstur „Sensual Producty“ hönnunarstefnunnar þar sem fullkomnu jafnvægi er náð á milli útlits og eiginleika sem draga úr loftmótstöðu.

Eiginleikar á borð við falda hurðarhúna, fljótandi Halo-þak og karmalausar hurðir gera það að verkum að hönnun smart #1 er álitin framúrskarandi í sínum flokki. Hinn nýi smart #1 er 4270 millimetrar að lengd, með 2750 millimetra hjólhaf og allt að 19 tommu felgur. Hönnun smart #1 er í anda grunngilda vörumerkisins sem er að óttast aldrei að vera öðruvísi.