Medellín er önnur stærsta borg Kólumbíu í norðvesturhluta landsins. Borgin er kölluð borg hins eilífa vors vegna milds veðurfars allt árið. Hún er í Abdurra dalnum og er auðþekkjanleg á mikilli gróðursæld.

Í borginni voru mörg af hættulegustu hverfum í heimi þar til fyrir um 20 árum, eftir að stjórnvöld réðu niðurlögum glæpagengja og eiturlyfjasala. Stærstu borgir Kólumbíu eru öruggar fyrir ferðamenn þó aðeins hafi borið meira á á glæpum undanfarið.

Hér skaltu búa

Fjölmargir valkostir í boði þegar kemur að gistingu í borginni. Allt frá́ lúxushótelum til farfuglaheimila, þú munt örugglega finna eitthvað sem uppfyllir þarfir þínar.

Click Clack hótelið

Án efa skemmtilegasta hótel borgarinnar er Click Clack hótelið í El Poblado hverfinu sem er eitt fínasta hverfi borgarinnar. Þar er mikill fjöldi veitingastaða, verslana og skemmtistaða í göngufjarlægð.

Það sem stendur upp úr er sundlaugin á efstu hæð hótelsins með dásamlegu útsýni yfir borgina. Herbergin eru í mörgum stærðum, þau minnstu frekar lítil en þú færð það sem þú borgar fyrir og herbergin kosta frá 200 evrum nóttin.

Fjórir veitingastaðir eru á jarðhæðinni á hótelinu sem eru allir mjög góðir. Það sem þó stendur upp úr er morgunmaturinn. Hann er borinn fram á einum veitingastaðanna á jarðhæðinni fyrir opnum himni.

Elcielo hótelið

Hótel Elcielo er í sama hverfi og Click Clack. Það er vandaðra og íburðarmeira hótel, meira í anda Edition hótelanna, og um leið töluvert dýrara. Stemningin er aðeins síðri þó auðvitað verði hver og einn að meta það fyrir sig.

Það er margt amerískt við Kólumbíu þó að innfæddir séu ekkert sérstaklega hrifnir af Bandaríkjunum. Það sem er ekki amerískt er stærðin á herbergjunum. Þau eru evrópsk og því í minni kantinum. Sundlaugin á efstu hæðinni er glæsileg með um það bil nákvæmlega sama útsýninu og Click Clack.

Hér skaltu borða og drekka

Borgin býður upp á fjölbreytt úrval af veitingastöðum, kaffihúsum og börum.

Hvort sem þú ert í skapi fyrir hefðbundna kólumbíska matargerð eða alþjóðlega rétti, munt þú örugglega finna eitthvað við þitt hæfi.

Colosal

Besti veitingastaðurinn í borginni sem er upp í hæðinni með góðu útsýni er án ef Colosal. Staðurinn er mjög glæsilega innréttaður og útsýnið af svölunum er stórfenglegt.

Gróðursældin er slík að það er eins og verði sé að horfa yfir skóg, ekki síst að nóttu til. Maturinn er góður og nokkuð hefðbundin en þangað fara fæstir vegna hans.

Stærsti gallinn við staðinn eru allir túristarnir.

Oci.mde

Veitingastaðurinn Oci.mde er líklega besti veitingastaðurinn í borginni. Þrátt fyrir að þangað flykkist ferðamenn er staðurinn líka uppáhald innfæddra.

Þjónustan er frábær en afslöppuð. Ágæt leið til að kanna hvort hráefni á veitingastað sé gott er að panta sashimi. Það var fyrsta flokks.

Kolkrabbinn er frábær og úrvalið af steikum gott. Verðið er í samræmi við matinn, frekar hátt fyrir kólumbískan veitingastað en þarna eru engin íslensk áfengisgjöld, skattar og laun framleiðslufólk. Þannig að maður er að græða.

Bar á efstu hæð

Það er alveg nauðsynlegt að sækja einhvern af fjölmörgu efstuhæðarbörum í borginni.

La Deriva á Click Clack er ágætur en þeir er margir með betra útsýni. Envy á Charlee hótelinu er stórfínn. Mosquito á Somos hótelinu er líka góður.

Þetta skaltu skoða og gera

Það er af nógu að taka í þessari áhugaverðu borg. Medellin hefur ríkan menningararf, með blómlegu listalífi, lifandi næturlífi og dýrindis matargerð.

Comuna 13

Comuna 13 er eitt af sextán hverfum borgarinnar. Það var hættulegasta hverfið í borginni og líklega einn hættulegasti staður í heimi þar til lögreglan og herinn réðust inn í hverfið og upprættu glæpalýðinn. Skærur voru þó í borginni alveg til 2010.

Ein ástæða þess að hverfið var svo hættulegt er sú að það var vegna staðsetningar sinnar einskonar hlið inn í borgina fyrir eiturlyf og vopn.

Pablo Escobar stjórnaði hverfinu upp úr 1980, reyndar eins og svo mörgum öðrum í borginni.

Mikil uppbygging hefur verið í hverfinu undanfarin ár. Það er byggt í brattri hlíð og því var komið fyrir rúllustiga, sem meðal annars er knúinn áfram af rafmagni.

Margir listamenn hafa sest að í hverfinu og það er líkt og Brimborg, öruggur staður að vera á.

Saga Escobars

Kólumbíumenn eru ekki hrifnir af sögu Escobars og Medellínbúar enn síður. Margar byggingar sem hann átti voru sprengdar eða brenndar rétt eins og fornbílasafnið hans. Það stöðvar ekki ferðamenn og margir staðir í borginni og nágrenni hennar tengjast eiturlyfjabaróninum.

Casa Museo Pablo Escobar er ágætt safn í einum af húsunum þar sem hann bjó í El Poblado. Þar eru meðal annars bílar sem hann átti. Einnig er áhugavert að sækja Envigado hverfið sem hann ólst upp í sem er suðaustur af borginni.

Margir vilja sjá hvar hann var drepinn, ekki síst í kjölfar þess að Netflix sýndi þættina Narcos. Það er á Carrera 79B No. 45D – 94 í Los Olivos hverfinu vestur af Medellín.

Hacienda Nápoles, búgarður Escobars, sem er í tæplega þriggja tíma akstursfjarlægð frá borginni. Búgarðurinn sjálfur var eyðilagður en margt er þar enn sem minnir á gamla tíð, eins og hliðið með flugvélinni.

Guatape, bærinn, vatnið og kletturinn

Í rúmlega klukkutímafjarlægð frá borginni er Guatape. Bærinn er ákaflega fallegur og litríkur og rétt að mæla með honum.

Sigling á vatninu er nauðsyn. Það er gríðarlega fallegt og á sér merkilega sögu. Í dag á þar efnafólk frá borginni sumarhús sem og kólumbískir auðmenn og frægir knattspyrnumenn. Áður áttu eiturlyfjabarónar flest þeirra.

Pablo Escobar átti þar mörg hús en aðalhúsið var sprengt í loft upp en grunnur þess stendur þar enn öðrum víti til varnar.

Húsið sem hýsti skemmtistað Escobars, og nefndist Manuela, stendur þar enn. Hann nefndi hann í höfuðið á dóttur sinni.

Kletturinn El Peñón er 200 metra hár. Það tekur aðeins um 20 mínútur að ganga upp 708 tröppurnar og er sannarlega þess virði. Útsýnið frá honum er stórfenglegt.

Greinin birtist í Eftir vinnu. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.