Þorri Hringsson
Þorri Hringsson

Þorri Hringsson myndlistarmaður hefur um árabil skrifað um vín. Á Facebook síðunni Víngarðinum birtir hann reglulega slíka dóma. Nú fer hann með lesendur í ferðalag frá Nýja Sjálandi til Suður-Afríku og loks Spánar. Í nýja heiminum bendir hann á tvenns konar hvítvín en á Spáni ráða rauðvínin ríkjum.

Saint Clair Omaka Reserve Chardonnay 2017
Stór og hnausþykkur Chardonnay er algerlega nauðsynlegur á jólunum og þessi nýsjálenski frá Saint Clair-víngerðinni er afskaplega góður fulltrúi fyrir þessa þrúgu.  Yfirhöfuð er Chardonnay gott með allskonar forréttum en þó alveg sérstaklega humri, hörpudisk og öðru fiskmeti. Svo er það ekki slæmur valkostur með ljósu fuglakjöti einsog kalkún. Þessi hérna er virkilega ljúffengur, bragð- og sýruríkur með nokkuð vænan skammt af eik sem skilar kremuðum og langvarandi ávexti.  Mjög evrópskur í uppbyggingu og anda.

2.999 krónur.

Kloof Street Old Wine Chenin Blanc 2019
Chenin Blanc er ein vanmetnasta hvíta þrúga veraldar og þótt hún eigi sinn heimavöll í Frakklandi miðju þá hafa suður-afrískar víngerðir notað þessa þrúgu frá upphafi vínræktar þarna á syðsta odda Afríku.  Þetta er bragðmikið og feitt vín með töluvert magn af ferskjum, sítrónubúðing, mandarínum, perum og hvítum pipar innanborðs.  Það hefur svo góða sýru, framúrskarandi jafnvægi og skemmtileg steinefni í eftirbragði.  Alveg hreint sérlega matarvænt.  Prófið það með allskonar bragðmeiri forréttum, súpum, kalkún, fiskréttum og svo bara eitt og sér.

2.990 krónur.

Marques de Murrieta Reserva 2016
Rauðvín verða tæplega klassískari en þetta hérna frá Rioja.  Marqués de Murrieta er ein af fremstu víngerðum þessa svæðis og þessi Reserva er algerlega óviðjafnanleg.  Þarna er það þrúgan Tempranillo sem er í aðalhlutverki en einsog tíðkast er það þroskað lengi í nýjum eikartunnum sem skilar silkimjúku og langvarandi víni.  Þarna eru rauðu berin áberandi en einnig dökk og sultuð ber, dökkt súkkulaði, kókos, vanilla og þurrkaðir ávextir.  Rauðvín sem gengur með nánast hvaða mat sem er en vín af þessari stærðargráðu ættu að vera með flottum kjötréttum; Wellington, hreindýri eða rjúpu.

3.991 króna.

Barahonda Summum 2017
Monastrell er þrúga sem höfðar vel til Íslendinga því þetta eru jafnan kjarnmikil og vel byggð vín með undirliggjandi sætu þótt sýran sé góð og því er jafnvægið einstakt.  Þetta vín hér, Summum frá víngerðinni Barahonda sem staðsett er í Yecla á Suður-Spáni, er flókið og kröftugt án þess að verða nokkurntíman gróft og hefur keim af sultuðum rauðum berjum, austurlenskum kryddum, plómum, Mon Chéri-molum og áberandi eikartónum.  Hafið það með allskonar fínni kjötréttum, er best með lambi og villibráð en það má einnig hafa það með góðri nautasteik og hamborgarhrygg.

3.995 krónur.

Fjallað er um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af tímaritinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .