Chen Xuyuan, fyrrum forseti kínverska knattspyrnusambandsins, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mútur samkvæmt ríkisfjölmiðlum. Chen játaði á sig sök í janúar um að hafa þegið rúmlega 11 milljónir dala í mútur.

Hin svokallaða barátta gegn spillingu í Kína undir forystu Xi Jinping forseta hefur snert nánast allar hliðar kínversks samfélags. Í knattspyrnu hafa tugir þjálfara og leikmanna einnig verið undir rannsókn.

Fyrr á þessu ári játaði Li Tie, fyrrum miðjumaður Everton og fyrrum yfirþjálfari kínverska karlalandsliðsins, að hafa greitt mútur til að fá æðstu þjálfarastöðu í landinu. Greiðslur fóru þar á meðal til Chen.

Saksóknarar sögðu að Chen hafi þegið peninga og önnur verðmæti í skiptum fyrir aðstoð við að útvega samninga og skipuleggja íþróttaviðburði. Brotin munu þá hafa átt sér stað milli 2010 og 2023 og sagði dómari í málinu að hann hefði valdið gífurlegum skaða fyrir knattspyrnu í landinu.

Ríkismiðlar greindu einnig frá því að þrír aðrir háttsettir einstaklingar innan kínverska knattspyrnusambandsins hafi verið dæmdir í 8 til 14 ára fangelsi fyrir spillingu.

Xi Jinping hefur áður fyrr sagt að hann vilji gera Kína að fótboltaþjóð en árið 2011 talaði hann um þrjár óskir sínar fyrir kínverska knattspyrnu. Sú fyrsta væri að komast aftur á HM, halda mótið og einn daginn vinna bikarinn.