Hinn nýi Mini Cooper SE er rafknúin útgáfa Cooper S og fyrsti rafbíll Mini. Hinn nýi Cooper SE nýtur fjölmargra tæknilausna og reynslu frá móðurfyrirtækinu BMW. Hann er þriggja dyra borgarbíll í ætt við sígildu goðsögnina.

Nýi bíllinn er framdrifinn með 184 hestafla rafmótor og 33 kW rafhlöðu og hámarkshraðinn er um 150 km/klst. Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst. er um 7 sekúndur og drægni rafhlöðunnar um 233 km samkvæmt WLTP staðli.

Það ætti að nægja flestum í borgarumferðinni þar sem hann nýtur sín best enda nettur og kemst allt. Og ætti raunar að duga að skjótast styttri bíltúra út fyrir bæinn og til baka.

Bíllinn er ekki stór en það fer ágætlega um tvo fullorðna fram í. Hins vegar er minna pláss í aftursætunum sem henta betur fyrir börn eða smávaxna.

Farangursrýmið er mjög lítið og rúmar í mesta lagi tvær handfarangurstöskur eða þrjá innkaupapoka. Mini hefur svo sem aldrei verið hugsaður til langferða né flutninga.

Auðvitað er hægt að troða einhverjum nettum IKEA vörum inn í hann í gegnum afturdyrnar og með því að fella niður aftursætin.

Bíllinn er mjög skemmtilegur og sportlegur í akstri.
Bíllinn er mjög skemmtilegur og sportlegur í akstri.

Mini Cooper SE í stuttu máli

  • Vél: 100% rafmagn 33 kw/h
  • Hestöfl: 184 Tog: 270 N/M
  • Hámarkshraði: 150
  • Hröðun 0-100: 7,3 sek
  • Verð: frá 5.990.000 kr.
  • Umboð: BL

Nánar er fjallað um bílinn í blaðinu Eftir vinnu, sem kom út 11.maí. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.