„Fyrirtækið er í miklum vexti og Covid hafði miklar breytingar í för með sér hvað varðar blönduð vinnusvæði og aðsóknin hefur stóraukist. Í þessum vexti er þörf á alvöru sóknarleik og ég er aggressífur sóknarleikmaður,” segir Ólafur Snorri Helgason sem hefur verið ráðinn sölustjóri Regus á Íslandi. Hann hefur undanfarinn áratug aflað sér víðtækrar og fjölbreyttrar reynslu af markaðs- og sölumálum.

„Ég hef verið í sölustörfum í um tíu ár og ég lít á sölumennsku ekkert ósvipað og á hverja aðra iðngrein. Það þarf að læra á hana og menn byrja á að labba áður en þeir geta farið að hlaupa,” segir Ólafur sem ber sölustjórastarfið saman við starf sóknarmanns í ensku deildinni.

„Sölumennska er gríðarlega mælanlegt starf og ekkert ósvipað því að vera framherji í ensku deildinni. Verkefni senters er að nýta færin sín og skora mörk, og frammistaða hans er mæld í mörkum. Með því fylgir pressa og svipað á við um sölustörf. Ég er að fara spila aggressífan sóknarleik og ég þarf að skora mörk. Það er pressa sem fylgir því, alveg eins og hjá framherja í ensku deildinni.”

Ólafur býr í miðbænum en er uppalinn á Seltjarnarnesinu. Hann segist eyða sem mestum tíma með tveggja ára syni sínum Alexander Helga. Þá æfir hann líkamsrækt nær alla daga vikunnar. Hann segir líkamsrækt sína leið til að komast burt frá daglegu amstri, og að hann hafi tekið ræktinni föstum tökum eftir að hann lagði áfengið á hilluna fyrir sex árum síðan.

„Ég er búinn að vera allsgáður í sex ár og á þessum tíma tekið líkamsræktina föstum tökum. Grunnundirstaða að velgengni í mínu lífi og starfi er sú ákvörðun sem ég tók að leggja áfengi á hilluna. Eftir þá ákvörðun urðu allir vegir færir.”

Nánar er rætt við Ólaf í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag, 6. mars.