Fjórir nýir sérfræðingar hafa gengið til liðs við stafræna hönnunarfyrirtækið Kolibri. Þeir eru Arnar Kári Ágústsson, Ásgrímur Már Friðriksson, Davíð Phuong Xuan Nguyen og Sveinbjörg Pétursdóttir.

Sveinbjörg Pétursdóttir er nýr sölu- og markaðsstjóri Kolibri. Sveinbjörg býr að margra ára reynslu af markaðsráðgjöf, framleiðslu og vöruþróun á auglýsinga- og afþreyingarmarkaði. Hún starfaði meðal annars hjá Símanum, ENNEMM auglýsingastofu, Stöð 2 og CCP. Hún er með B.Sc í viðskiptafræði frá HR með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Eiginmaður Sveinbjargar er David James Robertson stofnandi og eigandi Kría hjól og eiga þau tvo syni.

Arnar Kári Ágústsson hefur verið ráðinn sem forritari hjá Kolibri. Hann er með B.Sc í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sem forritari hjá Gangverk síðustu ár. Hann býr með Jönu Eir Víglundsdóttur, sérfræðingi á Hagstofu Íslands og saman eiga þau eina dóttur.

Ásgrímur Már Friðriksson hefur verið ráðinn sem rannsakandi á notendaupplifun og þjónustuhönnun hjá Kolibri. Ásgrímur er hönnuður og markaðsfræðingur sem starfaði áður sem hönnunarstjóri og ráðgjafi hjá Blóð stúdíó. Hann er með BA-gráðu í hönnun frá Listaháskóla Íslands og MS-gráðu í markaðsfræði frá Háskólanum á Bifröst. Ásgrímur kom að stofnun rannsóknarverkefnisins Keramar - hringrásarhagkerfi á milli sjávar og sveita. Hann er útgefinn rannsakandi á notendaupplifun og stafrænu ferðalagi viðskiptavina.

Davíð Phuong Xuan Nguyen kemur til starfa sem forritari hjá Kolibri. Hann kemur þangað frá Sendiráðinu þar sem hann hefur starfað eftir að hafa útskrifast með B.Sc í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2020.